Stoltastur af konunni "Það sem maður fæst við í dag er á morgun orðið hversdagslegt," segir Gunnlaugur Sigmundsson en hans mesta stolt á ferlinum er að hans sögn að hafa fundið sér góða konu.
Stoltastur af konunni "Það sem maður fæst við í dag er á morgun orðið hversdagslegt," segir Gunnlaugur Sigmundsson en hans mesta stolt á ferlinum er að hans sögn að hafa fundið sér góða konu.
Gunnlaugur Sigmundsson hefur lengi látið að sér kveða í atvinnulífinu sem og hjá hinu opinbera. Soffía Haraldsdóttir bregður upp svipmynd af Gunnlaugi.

Gunnlaugur Sigmundsson er forstjóri Kögunar hf. og hefur hann fylgt fyrirtækinu frá upphafi. Hann vann að stofnun þess árið 1988 og var þar framkvæmdastjóri í hlutastarfi þar til hann varð forstjóri árið 1993.

Samferðamenn Gunnlaugs í gegnum tíðina lýsa honum sem harðduglegum, afskaplega framtakssömum manni sem sé fljótur að átta sig á hlutunum þó svo að hann sjáist ekki alltaf fyrir. Velgengni sína í rekstri hafi hann skapað sér sjálfur en ekki hafi verið "mulið undir hann" og hann vilji að hlutirnir gangi hratt og vel fyrir sig. "Maðurinn er víkingur og vaskur til verka," sagði einn viðmælenda um Gunnlaug. Hann er sagður mynda sér sjálfstæðar skoðanir og ekki liggja á þeim, hann sé alls ekki "já-maður" og sumir segja hann skapmikinn en jafnframt sé hann þægilegur í samskiptum, með mikinn húmor og sýni ekki hörku umfram eðlilega málafylgju. Hann eigi góða vini og sé þeim tryggur en eigi sér líka sterka andstæðinga. Þá er hann sagður ákaflega metnaðarfullur og vilji ávallt vera fremstur meðal jafningja.

Nennir ekki kurteisishjali

"Þetta er fróðlegt að heyra en menn eru alltof vingjarnlegir við mig," segir Gunnlaugur þegar lýsingin er borin undir hann. Hann kannast vel við það að liggja ekki á skoðunum sínum. "Ég segi mönnum hreint út hvað mér finnst og nenni engu kurteisishjali. Sumir kunna ekki að meta það en öðrum finnst gott að vita hvar þeir hafa mig."

Hann segist líka hafa gaman af að ögra fólki og húmor hans þyki frekar hrjúfur. "Það er einn af mínum veikleikum, að ég sé gjarnan skoplegar hliðar á háalvarlegum málum. En þá er hætta á að maður verði talinn einhver galgopi."

Hvað andstæðinga sína varðar segir Gunnlaugur að það hljóti að vera eitthvað frá fyrri tíð. "Ég hélt nú að allt slíkt væri uppgert. Hérna áður fyrr gat ég verið snöggur upp á lagið en mér hefur tekist að temja skap mitt. Ég hef í seinni tíð reynt að ljúka öllum málum í vinskap en ég var ekki þannig þegar ég var yngri, þá var mér meira sama bara ef ég sigraði."

Gunnlaugur er fæddur í Reykjavík árið 1948 og ólst upp í Vesturbænum. Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ 1974 og lagði stund á nám í opinberri fjármálastjórnun hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum í Washington árið 1976. Jafnframt starfaði hann í fjármálaráðuneytinu frá 1971 til 1982. Þá lá leiðin aftur til Washington-borgar þar sem Gunnlaugur gegndi starfi aðstoðarmanns framkvæmdastjóra hjá Alþjóðabankanum í þrjú ár. Hann tók eftir það við starfi forstjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins og vann í kjölfarið að stofnun Þróunarfélags Íslands og var forstjóri þess frá 1986 og þar til hann varð forstjóri Kögunar. Árið 1995 var Gunnlaugur reyndar kosinn þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn á Vestfjörðum og sat á þingi í eitt kjörtímabil en sneri sér þá alfarið að Kögun. Hann hefur á ferli sínum setið í stjórnum fjölda fyrirtækja.

En af hverju skyldi Gunnlaugur vera hvað stoltastur á ferli sínum fram til þessa? "Það er að hafa getað fundið mér góða konu. Ég er afar stoltur af því. Hitt rennur bara saman þegar maður horfir til baka, eitthvað sem maður tekst á við í lífinu og fæst við hverju sinni. Það sem maður fæst við í dag er á morgun orðið hversdagslegt."

Eiginkona Gunnlaugs er Sigríður Sigurbjörnsdóttir, lærður meinatæknir, og eiga þau þrjú börn á þrítugsaldri, sem öll hafa lagt stund á nám í viðskiptafræði. Sigmundur Davíð er námsmaður í Bretlandi og einn stjórnenda í Kastljóssþætti Ríkissjónvarpsins, Sigurbjörn Magnús starfar hjá KB banka og Nanna í söludeild Eimskipa.

Voðalega gaman í vinnunni

Þegar Gunnlaugur er inntur eftir áhugamálum skellir hann upp úr og segir: "Þar fór í verra. Mér finnst voðalega gaman í vinnunni minni. Það finnst mér mest skemmtilegt en auðvitað er alveg fáránlegt að segja það. - Ég hef verið nokkuð mikið á vélsleðum. Byrjaði seint þannig að ég er svolítið ragur, en hef sinnt því nokkuð vel enda hef ég alltaf verið veikur fyrir vélbúnaði. Svo hef ég gaman af að gróðursetja tré við sumarbústaðinn og annast þau. Annars hafa áhugamálin gengið yfir í tímabilum í lífinu, sem lýkur svo og annað tekur við."

soffia@mbl.is