Kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna eru eðlilega mikið í umræðunni þessa daga, sérstaklega sá angi hennar sem kenndur er við togarann Sólbak. Líklega væri enn meiri þrýstingur á sjómenn og útvegsmenn að semja ef ekki stæði yfir verkfall...

Kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna eru eðlilega mikið í umræðunni þessa daga, sérstaklega sá angi hennar sem kenndur er við togarann Sólbak. Líklega væri enn meiri þrýstingur á sjómenn og útvegsmenn að semja ef ekki stæði yfir verkfall grunnskólakennara.

Það er í raun merkilegt hvað sjómönnum og útvegsmönnum hefur gengið illa að ná saman, enda hefur ríkið þurft að koma til hvað eftir annað til að höggva á hnútinn með því að setja lög á báða deiluaðila, ekki aðeins annan eins og svo oft er ranglega klifað á. Hagsmunir útgerðar og sjómanna hljóta að fara saman að miklu leyti og því ætti samningaleiðin að vera greiðari en virzt hefur. Af þeim umræðum sem hæst ber í þessum efnum eru það tvö meginatriði, sem ágreiningur er um. Annars vegar sú krafa sjómanna að njóta sömu lífeyrisréttinda og aðrir landsmenn, og hins vegar krafa útvegsmanna um að geta fækkað í áhöfn skipa sinna, svo fremi sem ný tækni, betri aðbúnaður og fleiri þættir leyfi það, á þann hátt að ávinningurinn af því skiptist milli útgerðar og sjómanna. Eins og staðan er í dag, leiðir fækkun í áhöfn til hækkunar á launakostnaði útgerðarinnar svo merkilegt sem það virðist vera.

Nú gæti venjulegu fólki fundizt þetta ósköp einfalt. Er það ekki fyllilega sanngjörn krafa sjómanna að þeir njóti sömu lífeyrisréttinda og annað fólk í landinu? Það hefði maður haldið. Er það þá ekki líka fyllilega sanngjörn krafa að ávinningurinn af fækkun í áhöfn skiptist á milli útgerðar og sjómanna? Maður hefði haldið það. Að útvegsmenn standi gegn auknum og sjálfsögðum lífeyrisréttindum sjómanna er jafnóskiljanlegt og að sjómenn standi gegn því að fjárfesting í nýrri, öruggari og betri skipum skili sér að einhverju leyti til útgerðarinnar í lægri launakostnaði. Betri skip og aukin tækni hlýtur að vera kostur, bæði fyrir útvegsmann og sjómenn. Fækkun í áhöfn leiðir vissulega til fækkunar starfandi sjómanna, en hærri tekna þeirra sem verða áfram um borð. Að hefta framgöngu tækninnar og sjálfsögð lífeyrisréttindi er varla það sem deiluaðilar vilja verða þekktir fyrir.

Í þessu sambandi má taka dæmi um þá þróun sem átt hefur sér stað í fiskvinnslu í landi. Stóraukin tækni hefur leitt til mikillar fækkunar starfsfólks, en aukins atvinnuöryggis og líklega hærri launa, þeirra sem enn vilja vinna í fiski. Þessi tæknivæðing hefur reyndar ekki hvað sízt átt sér stað vegna þess að Íslendingar hafa tekið aðra vinnu fram yfir fiskvinnsluna.

Hvaða áhrif deilan um kjarasamninginn um borð í Sólbaki hefur á hina eiginlegu kjaradeilu er ekki gott að segja. Hún hefur vissulega hleypt illu blóði í sjómannaforystuna eins og sakir standa, en kannski getur hún engu að síður leitt til þess að menn semji fyrr. Hefði verið samið við sjómennina á Sólbaki um sambærileg lífeyrisréttindi og verkafólk í landi nýtur hefði staðan verið nokkuð önnur og það má líka teljast eðlilegt að menn láti reyna á það hvernig félagafrelsið virkar. Það getur hins vegar varla verið vilji nokkurs í þessari deilu að hún leiði til þess að sérkjarasamningar verði gerðir fyrir nánast hvert og eitt skip, það á enn eftir að skera úr um það hvort slíkt stenzt lög.

Að þessu sögðu er ekki úr vegi að vísa þeirri spurningu til deiluaðila, hvað beri í raun og veru á milli. Er ekki hægt að semja um aukin lífeyrisréttindi gegn því að ávinningur í fækkun áhafnar skili sér líka til útgerðarinnar? Ætla sjómenn og útvegsmenn enn að gefast upp á því að semja sín á milli?

hjgi@mbl.is