Edward Prescott
Edward Prescott — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VÆNTINGAR fólks og fyrirtækja um efnahagsstefnu stjórnvalda í framtíðinni hafa áhrif á hegðan þeirra hér nú og þar með á áhrif tiltekinna efnahagsaðgerða.

VÆNTINGAR fólks og fyrirtækja um efnahagsstefnu stjórnvalda í framtíðinni hafa áhrif á hegðan þeirra hér nú og þar með á áhrif tiltekinna efnahagsaðgerða. Skorti stjórnvöld úthald eða vilja til þess að halda sig við yfirlýst markmið í efnahagsmálum eða freistast til þess að víkja frá þeim vegna skammtímasjónarmiða getur það komið þeim í koll. Þetta getur til að mynda skýrt þráláta verðbólgu í tilteknu landi þrátt fyrir að stöðugt verðlag sé einmitt yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar þar.

Þetta er ein af undirstöðunum í kenningum þeirra Finns Kydland og Edwards Prescott, Nóbelsverðlaunhafa í hagfræði 2004, um áhrif væntinga á hagstjórn en þeir hlutu verðlaunin einnig fyrir rannsóknir sínar á hagsveiflum. Segir í umsögn sænsku vísindaakademíunar að framlag þeirra Kydland og Prescott á sviði þjóðhagfræði sé umtalsvert en greinar þeirra um þessi mál birtust árið 1977 og 1982.

Þeir Kydland og Prescott sýndu fram á hvernig skýra mátti ýmis hagstjórnarleg vandamál út frá væntingum og skorti á trúverðugleika og stefnufestu stjórnvalda eða peningamálayfirvalda. Geri fyrirtækin til að mynda ráð fyrir peningaprentun og þar með vaxandi verðbólgu munu þau setja upp hærra verð fyrir vörur sínar, launþegar munu fara fram á hærri laun o.s.fr.v. Vilji stjórnvöld hins vegar ná tökum á verðlagi er skynsamlegast fyrir þau að standa við þau markmið, stjórnvöld sem hafa t.d. prentað peninga til að bregðast við auknum útgjöldum er líklegri til að gera það aftur og fyrirtækin og heimilin taka mið af því í væntingum sínum.

Og geri menn ráð fyrir að stjórnvöld muni auka skatta á sparnað í framtíðinni, þvert á gefin loforð, dregur það úr sparnaði þeirra núna.

Segja má að Ísland á tímum þrálátrar verðbólgu og gengisfellinga - þótt markmið stjórnvalda væru allt önnur - sé gott dæmi um þann hagstjórnarvanda sem Prescott og Kydland reyndu að skýra og um leið að benda á að trúverðugleiki og stefnufesta skila betri árangri en hentistefna þegar menn eru að glíma við hagstjórnarleg vandamál eins og að koma á stöðugleika eða milda hagsveiflur. M.ö.o. heimilin og fyrirtækin láta helst ekki plata sig nema einu sinni og hafi stjórnvöld glatað trúverðugleika getur það tekið þau langan tíma að ávinna sér hann aftur.

Segja má, svo menn haldi sig áfram við Ísland, að fyrirtæki og heimili hér hafi á sínum tíma verið farin að sjá í gegnum yfirlýsingar stjórnvalda (t.d um að alls ekki stæði til að fella gengið) og haga sér í samræmi við það.

Kenningar þeirra félaga á þessu sviði urðu til þess að leggja grunninn að umfangsmiklum rannsóknum um áhrif trúverðugleika ríkisstjórna og peningamálayfirvalda á hagstjórn og stjórnmálalega kosti við stjórnun efnahagsmála.

Þannig færðust áherslurnar í rannsóknum frá einangruðum áhrifum tiltekinna efnahagsaðgerða yfir á þær stofnanir sem taka ákvarðanirnar og trúverðugleika þeirra. Þetta varð til þess að í mörgum löndum voru gerðar breytingar á stjórnun seðlabanka og/eða framkvæmd peningamála sem meðal annars hafa birst í auknu sjálfstæði seðlabanka víða um heim á síðasta áratug eða svo.

Í samtölum við fjölmiðla, eftir að tilkynnt var um verðlaunin, lagði Finn Kydland áherslu á að það væri mikilvægt að ríki mótuðu fastar reglur um peningamálastjórnunina sem ekki væri hægt að breyta með skyndilegum pólitískum afskiptum.

"Margt fólk tekur ákvarðanir á grundvelli þess hvað það heldur að stjórnvöld muni gera í framtíðinni. Þannig að það er mikilvægt að stjórnvöld fylgi reglum svo fólk hafi trú á þeim," sagði Kydland.

En Nóbelsverðlaunin hlutu þeir Kydland og Prescott einnig fyrir rannsóknir sínar á hagsveiflum. Í þeim rannsóknum má segja að þeir hafi umbreytt hefðbundnum hagsveiflukenningum.

Í eldri kenningum var áherslan gjarnan lögð á skell á eftirspurnarhliðinni þegar kom að því að útskýra hagsveiflur en Kydland og Prescott sýndu fram á að áhrifin af skellum á framboðshlið hagkerfis gætu verið mikil, s.s. vegna hækkandi verðs fyrir olíu eða vegna minnkandi framleiðni vinnuaflsins. Hinn hefðbundni lærdómur hafði verið (Philips-kúrfan svokallaða) að stjórnvöld gætu dregið varanlega úr atvinnuleysi með því að leyfa verðbólgunni að fara af stað en þegar kom fram á áttunda áratuginn lentu ýmis hagkerfi í því að þurfa samtímis að glíma við atvinnuleysi og verðbólgu.

Eldri hagsveiflulíkön voru einkum byggð á hagsögulegu samspili tiltekinna efnahagsbreyta en þau líkön, sem gefist höfðu vel á sjöunda áratugnum, hættu að virka sem skyldi. Allt í einu blasti við efnahagsástand þar sem fór saman, þvert á eldri kenningar, viðvarandi atvinnuleysi og oft á tíðum umtalsverð verðbólga.

Þeir Prescott og Kydland lögðu þannig grunninn að mun betri hagsveiflulíkönum þar sem tekið var mið af væntingum fyrirtækja og heimila um fjölda þátta eins og t.d. neyslu, fjárfestingu og vinnuframboð sem um leið sýndu fram á hvað trúverðugleikinn hefur mikið að segja.

Viðbrögð fyrirtækja og væntingar þeirra gegna nú mun meira hlutverki í hagstjórnarkenningum vegna áhrifa af kenningum Prescott og Kydland. Þegar farið var að taka mið af þessum væntingum urðu menn um leiða að fara að meta líkurnar á því hvort stefna stjórnvalda væri trúverðug eða ekki.

arnorg@mbl.is