ÍTALSKUR ráðherra vakti í gær hneykslan og uppnám á Ítalíu er hann sagði, að "kynvillingar" réðu öllu í Evrópu.

ÍTALSKUR ráðherra vakti í gær hneykslan og uppnám á Ítalíu er hann sagði, að "kynvillingar" réðu öllu í Evrópu. Var tilefnið það, að borgararéttindanefnd Evrópuþingsins hafnaði naumlega ítölskum ráðherra, sem hafði verið tilnefndur til að fara með dómsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hafði hann áður lýst því yfir, að samkynhneigð væri synd.

"Aumingja Evrópa. Kynvillingarnir virðast vera þar í meirihluta," sagði Mirko Tremaglia, sem fer með málefni Ítala erlendis, er hann tjáði sig um uppákomuna í kringum Evrópuráðherrann í ríkisstjórn Silvio Berlusconis, Rocco Buttiglione, sem borgararéttindanefndin hafnaði.

Stjórnarandstaðan á Ítalíu krafðist þess í gær, að Tremaglia yrði látinn segja af sér en ekki er búist við, að af því verði. Sá hann sjálfur enga ástæðu til að biðjast afsökunar á ummælum sínum, heldur endurtók, að hann talaði aldrei um "samkynhneigða", heldur "kynvillinga" eins og gert væri á sínum heimaslóðum. Kvaðst hann vera á móti þeim.

Illorðir um ESB

Berlusconi og ýmsir ráðherrar í stjórn hans hafa áður haft ófögur orð um ESB og einstaka menn þar á bæ. Í júlí í fyrra líkti Berlusconi þýskum þingmanni við nasískan fangavörð og í apríl í vor þegar ítalska stjórnin var vöruð við því að brjóta stöðugleikasáttmálann, kallaði hann embættismenn ESB "lata þrjóta".

Róm. AFP.