Skráning Gunnhildur Þórðardóttir vinnur að því að gera  listaverk Reykjanesbæjar aðgengileg bæjarbúum. Listaverkavefur verður opnaður fljótlega.
Skráning Gunnhildur Þórðardóttir vinnur að því að gera listaverk Reykjanesbæjar aðgengileg bæjarbúum. Listaverkavefur verður opnaður fljótlega.
Reykjanesbær | "Það er áberandi hvað hugsunarhátturinn varðandi listir og menningu hefur breyst hér á þessum árum, sérstaklega eftir að Ljósanótt kom til.

Reykjanesbær | "Það er áberandi hvað hugsunarhátturinn varðandi listir og menningu hefur breyst hér á þessum árum, sérstaklega eftir að Ljósanótt kom til. Ég var að upplifa hana í fyrsta skipti í haust," segir Gunnhildur Þórðardóttir sem flutti í sumar aftur til síns gamla heimabæjar, Keflavíkur, eftir fimm ára búsetu í Cambridge í Englandi þar sem hún stundaði myndlistarnám við listaháskólann og síðan mastersnám í liststjórnun.

Gunnhildur hefur unnið að verkefnum fyrir Listasafn Reykjanesbæjar. Í sumar tók hún að sér að byggja upp skráningarkerfi og skrá öll listaverk í eigu Reykjanesbæjar. Hún hannaði gagnagrunn og safnaði þangað upplýsingum um öll verk í eigu bæjarins, sögu þeirra og listamennina. Hún notaði þær upplýsingar sem til voru í eldri handbókum safnsins og leitaði að óskráðum verkum. "Það fór mikill tími í gagnaöflun. Ég fór út um allar trissur, á staðina þar sem listaverkin eru, mældi þau og ljósmyndaði og mat ástand þeirra," segir Gunnhildur. Hún segist einnig hafa lagt í mikla vinnu við að afla upplýsinga um tilurð listaverkanna og listamennina og hafi í þeim tilgangi talað við fjölda fólks.

Töluvert af erlendum verkum

Gunnhildur segist hafa fundið fjölda listaverka. Þau hafi ekki beinlínis verið týnd - en hvergi skráð sem eign Reykjanesbæjar eða Listasafnsins. Þessi verk séu meðal annars í skólum bæjarins og inni á ýmsum skrifstofum. Þá hafi útilistaverkin verið í fyrsta skipti skráð núna og hún hafi einnig skráð ýmis verk sem menn hafi kannski ekki talið listaverk. Nefnir hún í því sambandi tíu góðar ljósmyndir eftir Rafn Hafnfjörð.

Niðurstaðan varð sú að Reykjanesbær ætti 355 listaverk og kom það mönnum á óvart hversu mörg þau eru. Gunnhildur flokkaði verkin í sjö flokka, sem svo allir hafa undirflokka, málverk, veflistaverk, prentverk, teikningar, höggmyndir, ljósmyndir og útilistaverk.

Listasafnið á verk eftir marga af gömlu meisturunum, svo sem Ásgrím Jónsson, Kjarval, Ríkarð Jónsson, Finn Jónsson, Þórarin B. Þorláksson og Jón Stefánsson og fjöldann allan af þeim listamönnum sem komu í kjölfar þeirra og síðar og listamönnum sem núna eru starfandi. Þá á safnið mörg verk eftir myndlistarmenn sem búið hafa í Reykjanesbæ eða eiga þar rætur.

Gunnhildur segir Reykjanesbæ eigi í vinabæjasambandi við nokkur sveitarfélög á Norðurlöndunum og í öðrum löndum og hafi fengið fjölda listaverka að gjöf vegna þeirra samskipta. Því sé töluvert af erlendum verkum í safninu. Það skapi Listasafni Reykjanesbæjar vissa sérstöðu.

Heimþráin sagði til sín

Hún segir að skemmtilegt hafi verið að vinna að þessu verkefni. "Ég fékk tækifæri til að ræða við fjölda listamanna þegar ég safnaði upplýsingunum og bý að því." Hún segist hafa getað aflað ýmissa upplýsinga úr bókum, sérstaklega um eldri listamennina, en komið hafi í ljós að það vantaði upplýsingar um listamenn samtímans. "Björn Th. hugsaði vel um þetta en það vantar arftaka hans."

Gunnhildur er uppalin í Keflavík en fór fyrir fimm árum til náms í myndlist við listaháskólann í Cambridge á Englandi. Að því loknu fór hún í mastersnám í liststjórnun og er nú á lokasprettinum í því. Hún flutti aftur heim í sumar og settist að í Keflavík. "Heimþráin var farin að segja til sín," segir hún.

Aðgengilegt bæjarbúum

Listasafn Reykjanesbæjar stendur fyrir kynningu á listaverkaeign sinni í Listasalnum í Duushúsum næstkomandi laugardag klukkan 11. Þar mun Gunnhildur kynna verkefni sitt. Í frétt frá Listasafninu er jafnframt minnt að þetta sé síðasta sýningarhelgi Ásu Ólafsdóttur í Duushúsum. Listamaðurinn verður á staðnum báða dagana.

Gunnhildur er nú að vinna að uppsetningu vefjar um listaverk Reykjanesbæjar. Þar verða myndir af öllum listaverkunum og upplýsingar. "Þarna verða öll listaverk bæjarins loksins aðgengileg bæjarbúum." Gunnhildur vonast til að hægt verði að opna vefinn í næta mánuði. Það megi ekki dragast mikið því hún sé að fara í fæðingarorlof.

"Það hefur verið skemmtilegt að fá tækifæri til að vinna að þessum verkefnum og ég er þakklát Valgerði Guðmundsdóttur menningarfulltrúa fyrir að hafa treyst mér til þeirra," segir Gunnhildur Þórðardóttir.