Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því seinni árin hversu mikil skákvakning hefur orðið á nýjan leik í landinu. Þar á taflfélagið Hrókurinn mikinn hlut að máli en hann hefur unnið mikið grasrótarstarf undir forystu Hrafns Jökulssonar.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því seinni árin hversu mikil skákvakning hefur orðið á nýjan leik í landinu. Þar á taflfélagið Hrókurinn mikinn hlut að máli en hann hefur unnið mikið grasrótarstarf undir forystu Hrafns Jökulssonar. Og nú kemur Skáksambandið fram á sjónarsviðið undir nýrri forystu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur.

Við Íslendingar höfum náð langt á vettvangi skáklistarinnar, ekki sízt eftir að við eignuðumst okkar fyrsta stórmeistara, Friðrik Ólafsson, sem þá og jafnan síðan hefur orðið fyrirmynd ungs fólks við taflborðið. Friðrik Ólafsson er einn af þeim afreksmönnum sem mótuðu fyrstu ár íslenzka lýðveldisins og veittu þjóðinni sjálfstraust. Nú eigum við tíu stórmeistara.

Nú er Guðfríður Lilja að opna nýja vídd í skákiðkun. Hún ætlar að beita sér fyrir geðræktarátaki, sem nefnist: Hugarafl við hugarangri. Og segir í samtali við Morgunblaðið sl. sunnudag að hún vilji koma á fót "þróunarverkefni í rannsóknum og kennsluaðferðum þar sem lögmálum skáklistarinnar er fléttað saman við hugræna atferlismeðferð til að gera venjulegu fólki betur kleift að takast á við hugarangur hversdagsins, áhyggjur og verkkvíða."

Þetta er afar áhugaverð og skapandi hugmynd og verður fróðlegt að sjá hvernig tekst að vinna úr henni.