NÚ þegar haustið gengur í garð fer fjöldi landsmanna að sinna hinum árlegu haustverkum. Meðal þess sem tilheyrir haustinu er að svíða kindahausa og hengja upp þorskhausa til þurrkunar. Þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði í sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga voru starfsmenn kaupfélagsins þar önnum kafnir við að svíða kindahausa. Aðspurðir sögðust þeir Jóhannes Guðmundur Þorbergsson og Ólafur Skúli Björgvinsson ekki hafa tölu á hausunum sem þeir myndu svíða á hreinu en áætluðu að þeir gætu verið á níunda þúsundið. Sviðakjammarnir munu vafalítið gleðja margan sælkerann þegar nær dregur þorra.
Á Sauðárkróki voru starfsmenn Fiskiðjunnar Skagfirðings í óðaönn að hengja upp þorskhausa til þurrkunar í rigningunni í gær. Raunar hefur fiskvinnslunni í landi bæst liðsstyrkur meðan verkfall í grunnskólum landsins hefur varað því fjölda eldri grunnskólanemenda hefur í verkfallinu gefist tækifæri á að vinna sér inn smáaukapening.
Að sögn munu krakkarnir vera kærkomin viðbót fyrir fiskvinnsluna því þar eru næg verkefni um þessar mundir.