Ríkarður Örn Pálsson
Ríkarður Örn Pálsson
Þjóðlegt - gæti verið einkunnarorð haustsins hvað tónlistarútgáfu áhrærir. Nýútkomið rímnasafn Iðunnar hjá Smekkleysu hefur vakið verðskuldaða athygli.

Þjóðlegt - gæti verið einkunnarorð haustsins hvað tónlistarútgáfu áhrærir. Nýútkomið rímnasafn Iðunnar hjá Smekkleysu hefur vakið verðskuldaða athygli. Þar er ekki aðeins um að ræða afar forvitnilegar upptökur með rímnakveðskap, heldur einnig veigamikið rit með nótum af stemmum og greinum fræðimanna í ritstjórn Gunnsteins Ólafssonar.

Ríkarður Örn Pálsson tónskáld og tónlistargagnrýnandi hefur bætt um betur og gefið út nótnaheftið Átján hugleiðingar um íslensk þjóðlög með útsetningum hans fyrir píanó á íslenskum þjóðlögum. "Ég hef nú gert eina og eina útsetningu fyrir kóra á íslenskum þjóðlögum, þannig að þetta var mér ekki alveg framandi," segir Ríkarður um verk sitt. "Fyrsti pati minn af þjóðlögunum var reyndar í gegnum Þrjú á palli sem ég útsetti fyrir. Það bar ekkert mikið á þjóðlögum þegar ég var í menntaskóla á 7. áratugnum en á þeim 8. varð mikil vakning. Þursarnir höfðu áhrif á mig en þeir rokkuðu þjóðlögin mjög skemmtilega. Um svipað leyti var ég líka nótnaskrifari hjá Ríkisútgáfu námsbóka þar sem ég kynntist þeim þjóðlögum sem voru í námsefni í tónmennt. Það var í þá daga þegar allar nótur voru handskrifaðar."

Þá var það að áeggjan Ólafs Elíassonar píanóleikara og -kennara að Ríkarður Örn fór að útsetja þjóðlög fyrir lengra komna píanónemendur og í nótnaheftinu eru því bæði lög sem Ríkarður átti fyrir og nýjar útsetningar. Hluta laganna er svo raðað í erfiðleikaröð með tilliti til hæfni píanónemenda. "Ég gerði nokkrar útsetningar fyrir Ólaf svona upp á grín, en ákvað svo að halda því áfram. Það eru ekki svo mörg tónskáld sem hafa útsett þjóðlög fyrir píanó. Það eru helst Jón Leifs, Jórunn Viðar og Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem útsetti þjóðlög í viktoríönskum salonstíl. Það gæti þess vegna verið að mitt safn væri stærst slíkra safna fyrir píanóið." Ríkarður segir að fyrstu tólf lögin séu þau sem hann hafði í huga fyrir Ólaf og nemendur hans. "En svo fór þetta að teygjast út fyrir áttunda stigið í píanóinu og síðustu verkin eru nú eiginlega bara fyrir konsertpíanista."

Áhugi á þjóðlögum og þjóðlegri tónlist er augljóslega vaxandi og Ríkarður á sinn þátt í þeirri þróun. Á þjóðlagageisladiski Björns Thoroddsen djassgítarleikara, þakkar Björn Ríkarði fyrir að hafa kveikt í honum áhuga á þjóðlögunum. "Já, þetta er allt vakrara núna allra síðustu árin. Svo eru tónskáldin að útsetja þjóðlög, eins og gert hefur verið í Skálholti. Það var kyndugt að heyra lög sem ekki hafa heyrst í mörg hundruð ár komin í öskrandi framúrstefnustíl. Það hefði kannski verið eðlilegra að við fengjum að kynnast þeim aðeins fyrst áður en farið var að teyma þau upp í hljóðfráar þotur. En það er í það minnsta engin ördeyða."

Ríkarður nefnir fleiri tónlistarmenn sem átt hafa þátt í að glæða áhuga á þjóðlögum, þar á meðal Sigur Rós og Steindór Andersen kvæðamann. Í tilefni af sýningu leikfélagsins Annars sviðs á Úlfhamssögu, hefur félagið í samvinnu við Tólf tóna gefið út Úlfhamsrímur, kveðnar af Steindóri - afar forvitnilegan kveðskap sem talinn er ortur á 14. öld. Í kjölfar styttri rímna sem eru í Iðunnarútgáfu Smekkleysu er góður fengur að því að heyra heila langa rímu kveðna.

Þá hefur Smekkleysa einnig gefið út geisladiskinn Funa þar sem Bára Grímsdóttir, kvæðakona og tónskáld, syngur íslensk þjóðlög í nýjum útsetningum.