Tríó Reykjavíkur (Peter Máté píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari). Gestir: Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og Ásdís Valdimarsdóttir víóluleikari. Sunnudagurinn 3. október 2004 kl. 20.

TRÍÓ REYKJAVÍKUR hóf 15. starfsár sitt með tónleikum fyrir fullu húsi í Hafnarborg í Hafnarfirði sunnudagskvöldið 3. október. Að þessu sinni voru gestirnir sem tríóið fékk til liðs við sig þær Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og Ásdís Valdimarsdóttir víóluleikari. Tríóið skipa þau Peter Máté píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari. Eins og kunnugt er þá deila þær Guðný og Sigrún með sér stöðu konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands og það er ekki oft sem færi gefst á að heyra þær leika saman. Allt það listafólk sem hér kom fram er með langa og farsæla reynslu af kammertónlist bæði hér heima og erlendis og voru því væntingarnar miklar.

Fyrsta verkið var Píanókvintettinn í Es-dúr opus 44 eftir Robert Schumann (1810-1856). Schumann samdi kvintettinn haustið 1842 og tileinkaði hann konu sinni Clöru Schumann, hann var leikinn í fyrsta sinn 6. desember sama ár og þá sá Mendelssohn um píanóleikinn og óskaði eftir líflegri miðkafla í 2. þáttinn. Kvintettinn var síðan frumfluttur í Gewandhaus í Leipzig 8. janúar 1843. Aðeins örlaði á ónákvæmni í samspili í fyrsta þættinum en síðan tók spilagleðin völdin og verkið leið í gegn með gáska í 3. þætti og dansandi gleði og leikandi fúgu í þeim fjórða og vel samstilltu samspili þar sem Sigrún lék á 1. fiðlu og Guðný á aðra - þær skiptu síðan um hlutverk í Brahms-kvintettinum.

Píanókvintettinn í f-moll opus 34 eftir Johannes Brahms (1833-1897) átti langa og erfiða fæðingu hjá tónskáldinu en 1864 varð hann til í endanlegri gerð. Mikill munur er á orkestrasjóninni hjá þessum tveimur vinum enda 30 ár á milli verkanna. Kvintett Brahms er allur þykkari og safaríkari og strengirnir betur nýttir en hjá Schumann. Kvintettinn er kröfuharður til allra flytjenda sem áttu magnað samspil og létu ekki trufla sig að nótur 1. fiðlu runnu niður á gólfið í átökum fjórða þáttar og Guðný mátti lesa þær þaðan drjúga stund áður en Sigrún átti þögn til að leggja þær aftur á púltið.

Sem sagt glæsilegur endir á stórgóðum tónleikum.

Jón Ólafur Sigurðsson