[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kanadamaðurinn Kid Koala er talinn vera einn merkasti plötusnúðalistamaðurinn í dag, vinnur innan stefnu sem kallast "turntablism" á ensku og á rætur í hipphoppi.

Kanadamaðurinn Kid Koala er talinn vera einn merkasti plötusnúðalistamaðurinn í dag, vinnur innan stefnu sem kallast "turntablism" á ensku og á rætur í hipphoppi. Þessi list snýst um að búa til nýja tónlist úr fyrirfram hljóðritaðri tónlist, byggja hana upp með hljóðbútum, töktum og plötuklóri. Aðrir listamenn eru t.d. DJ Shadow, X-Ecutioners, Cut Chemist, Mix Master Mike og Rob Swift. TFA, íslensku hipphoppsamtökin, hafa beitt sér markvist fyrir nýyrðasmíð og nota þeir orðið skífuskank yfir "turntablism".

Kid Koala (réttu nafni Eric San) er lærður tónlistarmaður og hafði fengist við tónlist í tíu ár áður en hann landaði samningi við bresku útgáfuna Ninja Tune, árið 1997, fyrir tilstuðlan raftónlistardúettsins Coldcut (en meðlimir hennar reka útgáfuna).

Coldcut eru reyndar einn stærsti áhrifavaldurinn á Kid Koala, tónlistarlega séð, en goðsögnin segir að Koala hafi sett tónlist eftir sjálfan sig viljandi í kassetutæki bíls sem notaður var til að sækja Coldcut-liða á Montrealflugvöll, þar sem Koala starfar og býr. Coldcut voru að koma til borgarinnar vegna spilamennsku og Koala var farþegi í bílnum.

"Þetta var nú ekki alveg þannig," segir Koala," og dæsir. "Þetta var snælda þar sem lög með Coldcut voru á einni hliðinni en á hina var ég búinn að setja eigin smíðar, frekar hrátt unnar fjögurra rása upptökur. Spólan var í fyrir slysni og þegar mitt efni byrjaði að hljóma fékk ég slag og skammaðist mín hrikalega. Ef ég hefði ekki setið aftur í hefði ég slökkt strax á og þá væri ég ekki að tala við þig í dag." Og svo kemur rokna hlátursgusa. Coldcut hrifust af því sem þeir heyrðu, vildu gefa það út og átta mánuðum síðar kom út platan Scratchappyland. Eftir það fór boltinn að rúlla hjá Koala og er Carpal Tunnel Syndrome frá 2001 talið mikið meistaraverk, einskonar tímamótaverk í skífuskanki.

"Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta vera hálfgerð kynningarplata," segir Koala af hógværð. "Umslagið er t.d. mjög viðvaningslegt enda eyddum við engum tíma í það. Platan er tilraunakennd, meira eins og skissa. Ég vissi ekkert hvað Ninja Tune vildi þegar ég var beðinn um að gera stóra plötu. Ég lenti í hálfgerðri kreppu og var hringjandi út sí og æt, biðjandi um ráð! Ég komst þó yfir þann hjalla. Ég er til muna sáttari við nýju plötuna mína."

Sú plata kom út í fyrra og heitir Some of My Best Friends Are DJ's. Hann sinnir ýmsum öðrum verkefnum jafnframt þessu þekktasta starfi sínu. Hann hefur gefið út myndasögubók, er í hljómsveitinni Bullfrog og hefur unnið með Mike Patton og Dan the Automator auk þess að hafa hitað upp fyrir Beastie Boys, Radiohead, Gorillaz og fleiri. Framundan er þá vinna við brúðuleikhús!? Kid Koala er sannarlega fjölhæfur skolli!

Kid Koala kemur fram á NASA, föstudaginn 22. október.

arnart@mbl.is