Lax þreyttur á Rangárflúðum í Ytri-Rangá, en þar er enn dreginn lax þótt öðrum ám hafi verið lokað. Veiðimenn hafa verið að fá mjög góðan afla.
Lax þreyttur á Rangárflúðum í Ytri-Rangá, en þar er enn dreginn lax þótt öðrum ám hafi verið lokað. Veiðimenn hafa verið að fá mjög góðan afla. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það fór aldrei svo að laxveiðinni væri algerlega lokið þetta árið, því ákveðið var að framlengja veiðitímann í Ytri-Rangá til 20. október. Hafa menn þar fyrir sér að gríðarlega mikið er af laxi í ánni og engin sérstök ástæða til að vernda...

Það fór aldrei svo að laxveiðinni væri algerlega lokið þetta árið, því ákveðið var að framlengja veiðitímann í Ytri-Rangá til 20. október. Hafa menn þar fyrir sér að gríðarlega mikið er af laxi í ánni og engin sérstök ástæða til að vernda hrygningarstofn. Það gæti því farið svo að vegna framlengingar skrölti Ytri- Rangá fram úr Eystri-Rangá í efsta sætinu yfir laxveiðiár með hvað hæsta aflatölu. Góð veiði hefur verið í Ytri-Rangá í framlengingunni.

Sem dæmi um aflabrögð má nefna 19 laxa á einu kvöldi, 20 á einum morgni og fleira þar fram eftir götunum. Enn veiðast lúsugir laxar og auk þess veiðast góðir sjóbirtingar í bland.

Ánægja með Eldvatnsbotna

Stangaveiðifélag Reykjavíkur, sem leigir Eldvatnsbotna, er ánægt með gang mála þar en skv. fregnum frá SVFR fór veiðin þar yfir 100 fiska, en svæðinu var lokað um síðustu helgi. Eitthvað af aflanum var væn bleikja, en megnið sjóbirtingur og er þetta besta veiðin á svæðinu í nokkur ár og í takt við neðri svæði Eldvatns og önnur sjóbirtingsveiðisvæði í Vestur-Skaftafellssýslu sem hafa verið líflegri í haust en síðustu ár. Þeir sem lokuðu "Botnum" veiddu vel, m.a. 12 punda dreka.

Frábært í Seglbúðum

Nú er senn að ljúka nokkrum viðbótardögum á Seglbúðasvæði Grenlækjar, en veiðin þar hefur verið mjög góð alla vertíðina og mun meira af sjóbirtingi heldur en síðustu ár. Þröstur Elliðason, leigutaki Seglbúðasvæðisins, segir heildarveiðina vera nærri þúsund fiskum, en hún var rétt yfir 600 í fyrra og þótti mönnum þá vera góður bati í gangi. "Þetta er blandaður afli, snemma sumars og um hásumarið var frábær bleikjuveiði með staðbundnum urriða í bland, allt vænn fiskur og bleikjurnar upp í 10 pund. Birtingurinn kom óvenjusnemma og hefur verið mikið af honum. Ég hitti fyrir stuttu nokkra Dani sem höfðu verið í fjóra og hálfan dag og þeir voru með 80 birtinga, upp í 11 pund. Þeir gjörþekkja ána og veiða mest á mjög þungar tungsten-púpur veiddar andstreymis," bætti Þröstur við.