Ekið milli Asíuhluta og Evrópuhluta Istanbúl í Tyrklandi. Stuðningsmenn aðildar Tyrkja að Evrópusambandinu segja að vegna íslamstrúar þeirra, legu og sögu muni Tyrkland verða brú sem aukið geti gagnkvæman skilning milli Vesturlandabúa og múslíma.
Ekið milli Asíuhluta og Evrópuhluta Istanbúl í Tyrklandi. Stuðningsmenn aðildar Tyrkja að Evrópusambandinu segja að vegna íslamstrúar þeirra, legu og sögu muni Tyrkland verða brú sem aukið geti gagnkvæman skilning milli Vesturlandabúa og múslíma. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring |Líklegt er að leiðtogar Evrópusambandsins samþykki á fundi sínum í desember að bjóða Tyrkjum til aðildarviðræðna. Kristján Jónsson segir að hugmyndin um aðild Tyrklands hafi valdið flokkadráttum í mörgum löndum ESB. Deilt sé um það hvað Evrópa sé - og hvað hún sé ekki.

Getur Evrópa búist við flóðbylgju bláfátækra smábænda frá hásléttum Anatólíu ef Tyrkir fá aðild að Evrópusambandinu innan tveggja áratuga? Og mun aðildin gera enn auðveldara fyrir ofstækisfulla hryðjuverkamenn í Miðausturlöndum að ráðast til atlögu í Vestur-Evrópu? Tortryggnin fer ekki milli mála. Fyrir nokkrum dögum var birt skoðanakönnun í Danmörku sem gaf til kynna að 64% kjósenda myndu greiða atkvæði gegn aðild Tyrkja að sambandinu ef málið yrði lagt í þjóðaratkvæði. Fyrir aðeins mánuði mældist andstaðan hins vegar 40%. Svipað er upp á teningnum í mörgum öðrum ESB-löndum, kannanir sýna mikla andstöðu við að múslímaþjóðin Tyrkir, sem nú eru rúmar 70 milljónir, fái aðild.

Stærstu stjórnmálaflokkar eru klofnir, hver höndin upp á móti annarri. En verði ekki breyting á gæti hugmyndin fallið í þjóðaratkvæðagreiðslu í einhverju ESB-landinu og það væri nóg, þá yrði henni vikið til hliðar. Og ekki er heldur víst að öll þjóðþing aðildarríkjanna samþykki aðildina. Helstu leiðtogar ESB-landanna hafa nær allir lýst eindregnum stuðningi við aðild Tyrklands. En breska tímaritið The Economist segir að leiðtogarnir hafi einfaldlega ekki lagt sig nógu vel fram við að útskýra kostina við að fá Tyrki inn. Hvað sem því líður bendir margt til þess að ráðamenn hafi varla áttað sig vel á því hvað almenningur í sambandslöndunum var að hugsa.

Raunveruleg aðild verður að vísu ekki á dagskrá fyrr en eftir í fyrsta lagi áratug. En í desember er gert ráð fyrir að leiðtogafundur sambandsins muni samþykkja að hafnar verði aðildarviðræður við Tyrki. Hingað til hafa slíkar viðræður ávallt endað með aðild umrædds ríkis.

Samrunaferlið sagt í hættu

Ástæðurnar sem bornar eru fram opinberlega gegn hugmyndinni eru m.a. að aðild svo fjölmennrar þjóðar með ólíkar hefðir og miklu lægri meðaltekjur en nokkur núverandi aðildarþjóð hafi í för með sér mikil útgjöld úr sameiginlegum sjóðum ESB. Aðrir spyrja hvort Evrópusambandið sé reiðubúið að takast á við þau flóknu viðfangsefni sem fylgi því að ytri landamæri þess liggi að ríkjum eins og Íran, Írak, Sýrlandi og Kákasusríkjunum. Nógu erfitt sé að leysa deilurnar sem þegar standa yfir um ýmis innbyrðis mál nýju aðildarríkjanna sem bættust við fyrir skemmstu eða munu bætast við næstu árin. Hugmyndirnar um aukinn samruna og þá ekki síst sameiginlega utanríkisstefnu muni bíða skipbrot ef Tyrkland bætist í hópinn. Aðild Tyrklands myndi merkja "endalokin fyrir Evrópu", að sögn Valery Giscard d'Estaings, fyrrverandi forseta Frakklands.

Á hinn bóginn segja þeir sem vilja fara hægt í sakirnar í samrunaferlinu, einkum Bretar, að prýðilegt sé ef aðild Tyrklands valdi töfum. Rétt sé að menn doki nú við og sætti sig við að samstarfið miðist ekki við að til verði nýtt risaveldi Evrópu þar sem allir tali einum rómi út á við og Brussel annist varnarmálin. Slík draumsýn taki ekki tillit til þess hve margt greini þrátt fyrir allt Evrópuþjóðirnar ennþá að. Langa aðlögun þurfi til að fólk í álfunni fari almennt að líta á sig sem Evrópubúa í stað þess að kalla sig t.d. Frakka eða Dana.

Enn aðrir velta því fyrir sér hver hugmyndin sé á bak við fyrirbærið Evrópusamband, hvort aðeins sé um hugmyndir og hugsjónir að ræða en ekki landafræði. Verða menn ekki einhvern tíma að reyna að skilgreina hvar endamörk álfunnar séu? Og hvað merkir það yfirleitt að vera Evrópumaður? Líklega er kominn tími til að fólk velti því fyrir sér hvað blasi við þegar álfan horfir í spegilinn. Eitthvað hlýtur það að merkja að Evrópusambandið er kennt við Evrópu en ekki enn stærra svæði eða allan heiminn.

Tyrkir eru ýmist taldir með eða ekki. Umtalsverður hluti tyrknesku þjóðarinnar býr í Evrópuhlutanum en um 90% af landsvæði ríkisins er í Asíu. Sé flett upp á vefsíðum þar sem ríki eru flokkuð landfræðilega er Tyrkland ýmist talið með Evrópu, Asíu eða Mið-Austurlöndum.

Stjórnmálaskýrendur segja hins vegar að bollaleggingar af þessu tagi ráði ekki endilega andúðinni á aðild Tyrkja. Óttinn við alþjóðleg hryðjuverk og tengsl þeirra í vitund flestra við íslam sé undir niðri helsta ástæðan fyrir tortryggninni meðal almennings í aðildarríkjunum sem fyrir eru. Þótt engin ríkistrú sé í Tyrklandi og síðustu 80 árin hafi stjórnvöld yfirleitt barist hart gegn tilraunum bókstafstrúarmanna íslams til að ná völdum óttast margir að slegið geti í bakseglin í þeim efnum. Bent er á að núverandi stjórnarflokkur sækir einkum fylgi sitt til sanntrúaðra múslíma og forsætisráðherrann, Recep Tayyip Erdogan, var fyrir nokkrum árum dæmdur í fangelsi fyrir að hvetja til trúarstríðs. Eða þannig túlkuðu stjórnvöld amk. orð hans, aðrir segja að maðurinn sé einfaldlega trúaður og það hafi nægt til að fangelsa hann. Síðustu árin hefur Erdogan komið fram sem dyggur umbótasinni og lagt sig fram um að gera Tyrki gjaldgenga í Evrópu. Umskiptin eru stundum borin saman við afrek föður lýðveldisins og mun harðskeyttari leiðtoga, Kemals Atatürks, sem dró miðaldaþjóðina nánast á hárinu inn á 20. öldina.

Kristinn klúbbur?

Hvað með menningararfinn, eiga flestir Evrópumenn eitthvað sameiginlegt og er kristin trú hluti af þeim arfi, þrátt fyrir dvínandi áhrif kirkjunnar? Hvergi í samþykktum Evrópusambandsins er tekið fram að það sé samfélag kristinna þjóða en menn leggja áherslu á að svonefnd evrópsk gildi skuli vera undirstaðan. Vandinn er að enginn veit með vissu hversu víðtækan skilning á að leggja í hugtakið. Sumir segja að átt sé við hugsjónir um eitt ríki allra Evrópuþjóða, frið, lýðræði og mannréttindi, konur þá ekki undanskildar eins og oft er raunin í löndum múslíma. Aðrir leggja áhersluna á frjáls viðskipti og bætt kjör sem muni tryggja frið og frelsi.

Sé aðeins litið á formið eitt ætti íslamstrú Tyrkja ekki að vera nein fyrirstaða, þeir skilja að ríki og trú í stjórnarskrá sinni. En sumir eru vantrúaðir á að svo verði áfram og benda á að tyrknesk stjórnvöld leggja oft stein í götu kristinna safnaða sem vilja reisa kirkjur og útbreiða boðskapinn. Jean-Pierre Raffarin, forsætisráðherra Frakka, er einn margra sem hafa efasemdir um aðild Tyrkja. Hefur hann sagt að menn ættu að hugsa sig vel um áður en þeir hleypa "flóðöldu íslams" inn í "árfarveg hinnar veraldlegu Evrópu".

Ein af rökunum fyrir því að Tyrkir fái aðild eru að mannfjölgun er svo lítil í núverandi aðildarríkjum að skortur á vinnuafli gæti orðið mikið vandamál í framtíðinni. Ekki er þó búist við að Tyrkir fengju umsvifalaust að flykkjast til ríkra Evrópulanda í atvinnuleit. Gera má ráð fyrir að settar verði skorður við því fyrstu árin. Margir nefna hins vegar sem rök fyrir aðild Tyrkja að þeir hafi sýnt að múslímaríki geti tekið efnahagslegum framförum og komið á lýðræði. Geti Tyrkland þannig orðið leiðarljós fyrir önnur múslímaríki og einkum átt við arabíska granna þeirra og Írana.

Ekki er samt víst að arabar líti á Tyrki sem fyrirmynd. Minna má á að Tyrkir voru öldum saman herraþjóðin í Miðausturlöndum sem leit niður á araba, taldi þá einskis nýta og hálfvillta hirðingja þótt þeir hefðu í árdaga gefið heiminum sjálfan spámanninn Múhameð. Þrátt fyrir sömu trú er samkenndin ekki mikil.

Sumir vestrænir leiðtogar og einnig Erdogan hafa gefið í skyn að verði Tyrkjum hafnað muni afleiðingin verða að almenningur í landinu gefi umbótastefnuna upp á bátinn. Forðast beri reiðina sem slík höfnun muni valda meðal Tyrkja sem muni draga þá ályktun að ESB sé "kristinn klúbbur" sem vilji ekki múslíma. Einnig geti slík niðurstaða orðið til að efla enn andúðina og hatrið sem víða ríkir í garð Vesturlanda meðal araba og fleiri múslímaþjóða.

En er rétt að gera ráð fyrir að tyrkneskur almenningur hætti að styðja umbætur á réttarkerfi og efnahagsmálum vegna þessara mála, að fólk kalli yfir sig verri kjör til að láta þannig í ljós reiði í garð Evrópu ef svarið verður nei? Líklegra hlýtur að teljast að verði aðild ekki samþykkt á næstunni muni Tyrkir reyna þess í stað að ná samningum um nánari tengsl við ESB þar til aðstæður breytist og raunveruleg aðild komist aftur á dagskrá.

Margir vara samt við því að vanmeta þau miklu sálrænu og pólitísku áhrif sem það myndi hafa á heimsmálin ef Evrópa byði Tyrkjum faðminn. Augljóst er að litið yrði öðrum þræði á þá ákvörðun sem táknræna sáttahönd sem rétt væri öllum múslímum í heiminum.

Grænt ljós 1963

Sumir stjórnmálaskýrendur segja að leiðtogar ESB hafi út á við notað fögur orð um Tyrki um langa hríð en með ýmsum ráðum reynt að fresta endalaust ákvörðun um aðildarviðræður og reynt að finna sífellt nýjar mótbárur í von um að þeir slyppu sjálfir við að taka á vandanum. Pólitísk rétthugsun sem takmarkar umræður um kosti og galla fjölmenningarsamfélagsins hefur vafalaust átt sinn þátt í að gera ráðamenn smeyka við að taka á svo eldfimu efni. Menn óttast að þeir muni í leiðinni fóðra nýnasista og önnur ofstækisöfl ef rædd eru vandamál sem geti fylgt inngöngu Tyrkja. Og enginn stjórnmálamaður vill kalla yfir sig stimpil eins og hugtakið rasisti sem stundum eru notuð eins og kylfa til að rota andstæðinginn í fyrstu lotu rökræðna.

En nú verða menn að sýna spilin sín. Tyrkir fengu með vissum hætti grænt ljós hjá forvera ESB, Efnahagsbandalagi Evrópu, á sjöunda áratugnum. Þáverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar, Þjóðverjinn Walter Hallstein, sótti þá heim 1963 og þegar hann kvaddi ráðamenn í Ankara sagði hann að Tyrkland væri "hluti Evrópu". Þetta var túlkað svo að einhvern tíma kæmi að því að þeir fengju aðild.

Stjórnmálaskýrandi í London, Heather Grabbe, segir að á sjöunda áratugnum hafi leiðtogar Evrópuþjóðanna verið "eitthvað utan við sig" og samþykkt alveg óvart hugmyndina um aðild Tyrkja. Sé þetta rétt er um að ræða enn eitt dæmi um að sagan virðist oft stjórnast af tilviljunum fremur en markvissri stefnu.

Heimildir: The Economist, Turkish Press com, International Herald Tribune, Foreign Affairs, The New Republic, The Weekly Standard.

kjon@mbl.is