MEIRIHLUTI Þjóðverja, um 59%, vill að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar tekin verður ákvörðun um aðild Tyrklands að Evrópusambandinu, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Nýlega sýndi önnur könnun að 57% þjóðarinnar væru andvíg aðild Tyrklands.

MEIRIHLUTI Þjóðverja, um 59%, vill að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar tekin verður ákvörðun um aðild Tyrklands að Evrópusambandinu, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Nýlega sýndi önnur könnun að 57% þjóðarinnar væru andvíg aðild Tyrklands.

Gerhard Schröder Þýskalandskanslari hefur sagt að stjórn hans styðji aðildina og ekki sé hægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að breyta stjórnarskránni. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf í báðum deildum þingsins til að samþykkja stjórnarskrárbreytingu.

Um 75% Frakka andvíg

Andstaða við aðild Tyrklands virðist fara vaxandi í mörgum ESB-ríkjum þótt flestir ráðamenn landanna séu hlynntir henni. Til að mynda eru um 75% Frakka og 64% Dana andvíg aðild Tyrklands, ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Leiðtogar Frakka hafa rætt um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu verði niðurstaða aðildarviðræðna jákvæð.

Líklegt er að samþykkt verði á leiðtogafundi ESB 17. desember að bjóða Tyrkjum viðræður um aðild og gætu þær hafist á næsta ári.

París. AFP.