IYAD Allawi, forsætisráðherra írösku bráðabirgðastjórnarinnar, krafðist þess í gær að áhrifamenn í borginni Fallujah, þar sem andstaða við veru Bandaríkjamanna í Írak hefur verið hvað mest, framseldu Jórdanann Abu Mussab al-Zarqawi í hendur yfirvöldum.

IYAD Allawi, forsætisráðherra írösku bráðabirgðastjórnarinnar, krafðist þess í gær að áhrifamenn í borginni Fallujah, þar sem andstaða við veru Bandaríkjamanna í Írak hefur verið hvað mest, framseldu Jórdanann Abu Mussab al-Zarqawi í hendur yfirvöldum. "Við höfum beðið íbúa í Fallujah að framselja Zarqawi og menn hans. Ef þeir verða ekki við þessu erum við reiðubúnir til að efna til meiriháttar hernaðaraðgerða í Fallujah," sagði Allawi.

Fulltrúar bráðabirgðastjórnarinnar og leiðtogar íbúa í Fallujah hafa um langt skeið átt í viðræðum sem miða að því að tryggja yfirráð stjórnvalda í Bagdad í borginni. Fallujah hefur verið sterkasta vígi arabískra uppreisnarmanna og hvorki íraskar öryggissveitir né liðsmenn Bandaríkjahers hætta sér inn í borgina svo heitið geti. Er talið að bækistöðvar Zarqawis séu í borginni.

Kröfur Allawis komu á svipuðum tíma og fréttir af því að Zarqawi og menn hans hefðu tekið tvo íraska gísla sína af lífi en þeir sögðu mennina hafa verið liðsmenn írösku leyniþjónustunnar. Þá bárust fregnir af því að a.m.k. níu Írakar hefðu fallið og fjórir bandarískir hermenn í skærum og sprengjutilræðum á nokkrum stöðum í Írak.

Fara fram á meiri aðstoð

Fulltrúar írösku bráðabirgðastjórnarinnar og bandarískir embættismenn hvetja þjóðir heimsins til að leggja meira af mörkum til uppbyggingarstarfsins í Írak en tveggja daga ráðstefna um þessi mál hófst í Tókýó í Japan í gær. Á sínum tíma fengust áheit upp á 33 milljarða Bandaríkjadala til uppbyggingarstarfsins en ekki hefur verið hægt að eyða nema 6,7 milljörðum dollara vegna ótryggs öryggisástands í Írak, enda gerir það mönnum erfitt fyrir að taka til hendinni.

Og nokkur ríki hafa þegar heitið frekari framlögum, það gerðu t.d. Íranir, Kúveitar og Suður-Kóreumenn á fyrsta degi ráðstefnunnar og Alþjóðabankinn hét 60 milljónum dollara til byggingar nýrra skóla og viðgerða á gömlum.

Í síðasta mánuði neyddust bandarísk stjórnvöld til að eyrnamerkja um 3,5 milljarða dollara, sem fara áttu í uppbyggingarstarfið, viðleitninni til að tryggja öryggi í landinu. Hvatti Richard Armitage, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, aðrar þjóðir heimsins í gær til þess að "brúa þetta bil" og leggja til fé til verkefna er miða að því að styrkja innviði írasks samfélags. "Ég held að úrbætur í orku- og vatnsmálum séu ofarlega í huga írösku þjóðarinnar," sagði Armitage.

Barham Saleh, varaforsætisráðherra írösku bráðabirgðastjórnarinnar, fór hins vegar fram á að erlend ríki afskrifuðu 120 milljarða dollara skuldir frá því í stjórnartíð Saddams Husseins. Hann fór einnig fram á meiri stuðning frá Sameinuðu þjóðunum og það sem fyrst. "Ég bið ykkur vinsamlegast um að bregðast ekki írösku þjóðinni," sagði Saleh.

Bagdad, Tókýó. AFP.