Árni Gautur Arason, markvörður Íslendinga, sagði við Morgunblaðið eftir leikinn að sporin hefðu verið þung af vellinum þegar svissneski dómarinn flautaði til hálfleiks í stöðunni 4:0.

Árni Gautur Arason, markvörður Íslendinga, sagði við Morgunblaðið eftir leikinn að sporin hefðu verið þung af vellinum þegar svissneski dómarinn flautaði til hálfleiks í stöðunni 4:0. "Þetta var hræðilegur fyrri hálfleikur og við spiluðum bara eins og fífl. Það var allt opið hjá okkur og baráttan engin. Við ætluðum að liggja vel til baka og vera þéttir en þegar Svíarnir skoruðu um miðjan fyrri hálfleik hrundi leikur okkar gjörsamlega og vörnin opnaðist illa. Við sýndum lit í seinni hálfleik og náðum sem betur fer að bjarga því sem bjargað varð en úrslitin og leikurinn í heild voru mér og okkur öllum sár vonbrigði," sagði Árni Gautur.

"Við höfum spilað langt undir getu í þessum fjórum leikjum en nú hefur botninum vonandi verið náð. Við getum ekki haldið svona áfram," sagði Árni ennfremur. Um mörkin fjögur sem hann fékk á sig sagði Árni: "Það var lítið sem ég gat gert. Svíarnir afgreiddu færin afar vel enda heimsklassaleikmenn í þeirra liði."

Spurður út í þá umræðu hvort tímabært sé að skipta um þjálfara sagði Árni: ,,Við leikmenn ræðum ekkert svona hluti en frá mínum bæjardyrum séð ber ég fullt traust til þeirra. Ég hef fulla trú á þeim og ég vona að okkur takist saman að rífa liðið upp. Við leikmenn þurfum að hugsa okkar gang og það munum við gera áður en þráðurinn verður tekinn upp að nýju í mars. Það er bara verst hvað er langt í næsta leik."

Guðmundur Hilmarsson skrifar