Helgi Guðbjörnsson fæddist 14. júlí 1953. Hann lést á heimili sínu 4. október síðastliðinn. Foreldrar hans eru Guðbjörn Einarsson bóndi og hreppstjóri á Kárastöðum í Þingvallasveit, f. 2.11. 1918, d. 17.1. 2000 og Elín Steinþóra Helgadóttir húsfreyja þar, f. á Vopnafirði 19.10. 1916. Systkini Helga eru: Gunnlaugur Geir, f. 16.12. 1943, Guðrún, f. 3.5. 1945, Erla, f. 10.2. 1947, Einar, f. 22.5. 1951 og Kári, f. 28.2. 1956.

Helgi kvæntist 14.2. 1976, Þóru Einarsdóttur, f. 5.6. 1955, úr Garðabæ. Hún er dóttir Einars Jónssonar, f. 7.6. 1918, d. 12.11. 2001 og Guðlaugar Lillýjar Ágústsdóttur, f. 16.8. 1918. Börn Helga og Þóru eru: Róbert Styrmir viðskiptafræðingur, f. 29.5. 1975, sonur hans er Alexander Fannar, f. 8.6. 2000 og Linda tölvunarfræðingur, f. 19.4. 1980, sambýlismaður Björn Eiríksson kerfisfræðingur, f. 21.4. 1976.

Helgi ólst upp á Kárastöðum, gekk í barnaskóla á Ljósafossi í Grímsnesi, gagnfræðaskóla á Brúarlandi í Mosfellsveit og síðan í Loftskeytaskólann í Reykjavík. Hann stundaði ýmis störf frá 1971-1979, meðal annarra á Eldborgu GK-13, hjá JP Innréttingum og í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Helgi og Tóta tóku við búinu á Kárastöðum árið 1979, jafnframt tók hann við starfi hreppstjóra af föður sínum og gegndi því þar til embætti hreppstjóra var aflagt á landinu. Þau stunduðu sauðfjárbúskap þar til árið 1986, er þau hófu rekstur Þjónustumiðstöðvarinnar á Þingvöllum, sem þau hafa rekið síðan.

Helgi verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Jarðsett verður á Þingvöllum.

Tíminn líður hægt eða hratt eftir aðstæðum. Ekki finnst okkur systkinum langt síðan við vorum hluti af sex systkina hópi sem ólst upp á stóru sveitaheimili eins og þau gerðust fyrir fimmtíu til sextíu árum. Margt kemur upp í hugann þegar komið er að kveðjustund Helga, næstyngsta bróður okkar. Á Kárastöðum var alltaf margt í heimili, við sex systkinin, foreldrar okkar og fjögur vinnuhjú, þannig að þegar við vorum öll heima voru alltaf tólf manns við matborðið. Auk þess voru tekin börn í sveit á sumrin. Mikill gestagangur var og öllum boðið kaffi og meðlæti og ekki óalgengt að enn fjölgaði við matborðið ef heimferðin dróst. Allir búskaparhættir voru með allt öðrum brag en í dag og vorum við liðtæk með hrífuna að snúa og raka dreif. Margt hefur breyst á þessum tíma og erfitt fyrir börn í dag að ímynda sér hvernig var þegar ekki var sjónvarp, tölvuleikir og annað sem er sjálfsagður hlutur í dag. Það var hlustað á útvarp á kvöldin, fylgst með framhaldssögum, leikritum og barnatímum. Það var spilað, teflt, lesið eða farið niður í eldhús og spilaður "marías" við Stínu. Við áttum okkur Bú þar sem stelpurnar voru liðtækar í drullukökubakstri en strákarnir ráku stórbúskap með leggjum og kjálkum. Við fórum í heimavistarskóla að Ljósafossi vorum hálfan mánuð í skóla og hálfan mánuð heima. Ekki var okkur öllum jafnauðvelt að fara að heiman sjö ára gömlum og heimþrá algeng. Það var Helga sérstaklega erfitt. En þetta var bara þannig þá og ekki kom annað til greina en að fara. Þegar við uxum úr grasi, fórum við hvert sína leið, í skóla eða vinnu. Helgi fór að heiman uppúr 1970 og vann ýmis störf, bæði til lands og sjávar. 1979 sneri Helgi heim og tók við búi foreldra okkar ásamt Tótu konu sinni. Þá var Róbert sonur þeirra fjögurra ára og ári seinna fæddist Linda. Árið 1986 hættu þau með búskap og hafa rekið Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum síðan. Helgi bar ekki tilfinningar sínar á torg en gat verið stríðinn og gamansamur þegar sá gállinn var á honum. Hann hafði ákaflega gaman af öllum nýjungum og var mjög tækjaglaður. Góður á videovélina, GPS tækið og liðtækur ljósmyndari. Veiðiskapur var hans líf og yndi og var hann ekki glaðari en þegar hann stundaði Vatnið. Hann var einstaklega barngóður, börn og unglingar löðuðust að honum. Ekki hefur sést stoltari afi en hann, þegar Alexander, sonur Róberts fæddist. Á undanförnum árum hefur hann ferðast töluvert til útlanda, ýmist einn eða með Tótu. Tvisvar fór hann í enskuskóla, fyrst til Englands og síðan til Möltu til að auðvelda sér samskipti við erlenda ferðamenn sem komu í Þjónustumiðstöðina. Við kveðjum kæran bróður með kvöldbæninni sem mamma kenndi okkur öllum:

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)Elsku Tóta, Linda, Bjössi, Róbert og Alexander, Guð styrki ykkur í sorg ykkar.

Geir, Guðrún, Erla,

Einar og Kári.

Í dag kveðjum við elskulegan frænda okkar Helga Guðbjörnsson frá Kárastöðum. Helgi frændi var okkur mjög kær og við eigum margar ljúfar minningar um góðan dreng sem við munum varðveita í hjörtum okkar um ókomin ár með þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast honum.

Megi góður Guð styrkja Tótu, Róbert, Alexander, Lindu, Bjössa og okkur öll á þessari sorgarstundu og blessa allar góðar minningar um okkar ástkæra Helga.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elín Bára, Kristbjörg Linda, Guðmundur Þór.

Nú er hann frændi minn á Kárastöðum farinn í ferðalag. Við vorum nýbúin að ræða saman um það hvernig veturinn yrði. Helgi sagði að hann yrði harður því allir þrestirnir væru farnir.

En svo kemur vor. Það kemur alltaf aftur vor. Megi góður guð halda verndarhendi yfir eftirlifandi ástvinum hans. Blessuð sé minning Helga Guðbjörnssonar.

Vilborg Halldórsdóttir.

Það er svo skrítið að hann Helgi skuli vera farinn úr þessu lífi. Mér finnst alltaf hluti af mér eiga heima á Kárastöðum.

Ég var nýorðin 13 ára og var í heimsókn á Kárastöðum með mömmu og pabba. Þegar við fórum að huga að heimferð þá spurði Helgi hvort ég vildi ekki bara verða eftir og vera strákur hjá þeim um sumarið. Mér leist vel á það enda hafði ég oft fengið að dvelja í sveitinni. Þá spurði hann, og dró seiminn, hvort mig langaði ekki einmitt í hest, það væri nefnilega einn úti á túni sem væri tilbúinn í tamningu! Hann var ekkert að hafa mörg orð um hlutina, enda þurfti það ekki. Svona hófst fyrsta sumarið mitt sem strákurinn á Kárastöðum og þau áttu eftir að verða nokkur. Þau tímabil virðast vera ótrúlega stór hluti af þessum árum. Ég leit á Kárastaði sem mitt annað heimili.

Svo margar minningar tengjast Helga. Í sauðburðinum, á vatninu að vitja um, í heyskapnum, í smalamennskunum og svo síðar í sjoppunni. Það eru svo ótalmörg atriði sem standa upp úr í minningunni, mörg hver skondin og skemmtileg. Hann var oft fámáll en alveg einstaklega góður og skemmtilegur.

Elsku Tóta, Róbert og Linda. Guð gefi ykkur styrk. Takk fyrir allar góðu stundirnar með ykkur öllum.

Elín frænka.

Hann Helgi á Kárastöðum var ekki maður margra orða og hafði sjaldan hátt, þótt hann hefði sitt fram á sinn eigin hægláta hátt. Og undir niðri hafði hann skemmtilegan húmor, þó að það áttuðu sig kannski ekki allir á því, þar sem hann hafði þykka skel sem hann hleypti ekki hverjum sem var inn fyrir.

Við systur unnum hjá honum og Tótu í Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum í fleiri sumur en við getum komið tölu á og má raunar segja að þar höfum við haft okkar fyrstu kynni af hinum almenna vinnumarkaði. Það var oft handagangur í öskjunni á þeim bænum, og ber þar hæst villimannahelgarnar, en það var annað orð yfir verslunarmannahelgar hjá þeim Helga og Tótu. Þá var líf og fjör í kringum þau og allt að því vertíðarstemmning. Það var gott að vinna hjá þeim hjónum, því við fundum að okkur var treyst og það var okkur mikils virði.

Við munum alltaf geyma minninguna um góðan dreng og hugur okkar er hjá hans nánustu á þessum þungbæru tímum. Við vottum Kárastaðafjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Margrét og Helga

Sveinbjörnsdætur frá

Heiðarbæ.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Helgi frændi hefur fengið hvíldna sem hann hefur þráð svo heitt. Minningin um hann mun lifa í hjörtum okkar.

Hvíli hann í friði.

Elsku Tóta, Róbert, Linda, Bjössi, Alexander Fannar og aðrir ástvinir, megi góður Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu stundum sem framundan eru.

Guðrún Kristinsdóttir og

fjölskylda í Búðardal.