Minning: Ásta Jósepsdóttir frá Atlastöðum Fædd 8. nóvember 1910 Dáin 6. febrúar 1992 Nú er hún amma, Ásta Jósepsdóttir frá Atlastöðum í Fljótavík, dáin. Líf hennar var langt og oft á tíðum þyrnum stráð. Hún fékk að reyna mikið, en samt var hún alltaf glöð og svo mikill klettur í tilveru minni og margra annarra. Amma var fædd og uppalin á Atlastöðum í Fljótavík. Þangað lá hugurinn alltaf og hún bar þess merki að vera alin upp í þessu einangraða samfélagi innan um há fjöllin, björgin og ægikraft hafsins.

Fyrsta minning mín var þegar ég og Lóló systir mín sátum í eldhúsinu hjá ömmu og hún var að kenna okkur að spyrða bönd, sem hún var að vinna fyrir Íshús Hafnarfjarðar og á meðan sagði hún okkur sögur frá bernsku sinni í Fljótavík. Þá hef ég ekki verið mikið eldri en fjögurra ára. Svo man ég líka mjög vel eftir því þegar amma og Lóló voru að koma í strætó að heimsækja okkur á Bergstaðastrætið. Hún kom alltaf færandi hendi þótt efnin væru ekki mikil og vildi alltaf fórna sér fyrir mömmu og okkur systkinin.

Í eitt skiptið þegar amma kom fannst ég ekki hvernig sem leitað var. Það endaði með því að haft var samband við lögregluna. Að skömmum tíma liðnum komu fréttir þess efnis að fimm ára drengur hefði fundist á Arnarneshæðinni á leið til ömmu sinnar í Hafnarfirði.

Sem unglingur leitaði ég alltaf til hennar ömmu þegar ég þurfti á stuðningi og aðstoð að halda og reyndist hún mér alltaf vel.

Amma var alltaf svo jákvæð og sérstaklega lagin við að útiloka það neikvæða. Hún hélt því t.d. alltaf fram að ís væri ekki fitandi vegna þess að henni þótti hann svo góður. Henni þótti mjög gaman að spila á spil og sátum við og spiluðum oft tímunum saman og þá tilheyrði alltaf að fá sér ís í lokin.

Eitt var það í fari ömmu sem entist fram á síðustu stundu, það var hversu barngóð hún var. Síðustu fjögur árin sem hún bjó á Suðurgötunni átti ég og fjölskylda mín heima við hliðina á henni. Bæði mín börn og önnur í götunni leituðu mikið til hennar og aldrei fór það svo að hún stingi ekki að þeim einhverju góðgæti, enda undi hún sér best innan um börn. Hún gat endalaust spjallað við þau og sagt þeim sögur og þannig var það líka eftir að hún fór á Hrafnistu.

Það er skrítið að amma skuli vera dáin. Hún var þarna og maður heimsótti hana þótt það hefði kannski mátt vera oftar. Hún hélt manni við bernskuna og uppruna sinn. Nú er hún farin og það er svo tómlegt. Í einfeldni minni hélt ég að hún yrði þarna alltaf svo einkennilegt sem það er. Ég er svo feginn að hafa fengið að vera viðstaddur þegar hún amma mín dó. Það styrkti mig í þessum missi og það að verða vitni að andláti nákomins ættingja gerir mann meðvitaðri um dauðann, sem við öll eigum eftir að taka á móti.

Blessuð sé minning ömmu minnar.

Rúrik.