17. janúar 2005 | Fasteignablað | 301 orð | 1 mynd

Einar Sveinsson arkitekt og nokkur verka hans

Landspítali - háskólasjúkrahús í Fossvogi.
Landspítali - háskólasjúkrahús í Fossvogi. — Morgunblaðið/Júlíus
Einar Sveinsson nam í Þýskalandi fyrstur Íslendinga og hóf störf í Reykjavík strax eftir heimkomu til Íslands 1932. Hann hóf fljótlega samvinnu við Sigmund Halldórsson húsameistara sem síðar varð byggingafulltrúi Reykjavíkur.
Einar Sveinsson nam í Þýskalandi fyrstur Íslendinga og hóf störf í Reykjavík strax eftir heimkomu til Íslands 1932. Hann hóf fljótlega samvinnu við Sigmund Halldórsson húsameistara sem síðar varð byggingafulltrúi Reykjavíkur. Árið 1934 var Einar ráðinn húsameistari Reykjavíkur og gegndi hann því starfi í tæp 40 ár, allt til þess er hann lést árið 1973.

Einar varð einn helsti boðberi funkisstefnunnar í byggingarlist hér á landi.

Hönnun opinberra bygginga var einn umfangsmesti þátturinn í lífsstarfi Einars, má þar t.d. nefna Melaskóla og Laugarnesskóla (nú austurálma skólans, Einar vann að stækkun hans í samvinnu við Ágúst Pálsson arkitekt 1942), Snorrabraut 56, þá hús Strætisvagna Reykjavíkur (1933) og áfram mætti telja.

Mikilvægur þáttur í starfi Einars sem húsameistara var vinna hans að skipulagsmálum Reykjavíkurborgar en Einar hafði í námi sínu lagt sérstaka stund á skipulagsfræði.

Fyrsta verkefni þeirra Einars og Valgeirs Guðjónssonar bæjarverkfræðings var einmitt framtíðarskipulag Reykjavíkur utan Hringbrautar (upp úr 1934) og á árunum 1936 til 1940 var unnið að mótun byggðar í Melahverfi.

Einar var brautryðjandi í hönnun fjölbýlishúsa með nútímasniði, hann teiknaði íbúðarhús Reykjavíkurbæjar við Hringbraut, Skúlagötu (1947), Lönguhlíð, Kleppsveg 2-6 (1956-1958). Einnig teiknaði hann fyrir Byggingarsamvinnufélag prentara fjölbýlishús á Hagamel 14-24 árið 1945, Neshaga 5-9, Hjarðarhaga 54-58, Kleppsveg 2-6 og að síðustu Sólheimablokkirnar.

Á árunum 1945-1955 unnu Einar og Gunnar H. Ólafsson arkitekt saman að teikningum kunnustu bygginga Einars svo sem Langholtsskóla, Heilsuverndarstöðinni og Borgarspítalanum (nú Landspítali - háskólasjúkrahús) í Fossvogi en spítalinn var tekinn í notkun 1966. Þeir unnu einnig saman að litlu húsi við Reykjavíkurhöfn (á horni Tryggvagötu og Ægisgötu) sem nú er matsölustaður, Hamborgarabúllan.

Húsið gegndi fyrst hlutverki vigtarskýlis, kaffistofu og þar var einnig blaðsöluturn.

Seinustu byggingu sína teiknaði Einar árið 1971, verslunar- og íbúðarhús á Bergstaðastræti 7 á vegum fyrirtækisins Pfaff hf.

Byggt á ritinu Einar Sveinsson, arkitekt og húsameistari Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur gaf út 1995.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.