V íkverji var á Ísafirði um miðjan janúar og undi hag sínum vel þá fáu daga sem hann var þar. Mikill snjór er þar vestra eins og öllum er kunnugt og hefur ekki annað eins sést í áratug eða svo.

Víkverji var á Ísafirði um miðjan janúar og undi hag sínum vel þá fáu daga sem hann var þar. Mikill snjór er þar vestra eins og öllum er kunnugt og hefur ekki annað eins sést í áratug eða svo. En Vestfirðingar eru að sjálfsögðu vanir miklum snjó, annað en Víkverji, borgarbarnið, getur sagt. Slík er umönnun á götum borgarinnar að varla má koma korn úr lofti án þess að saltausturinn hefjist. Það er alltaf jafnslæm færðin í úthverfunum en stærstu umferðargöturnar njóta forgangs. Og þar sem Víkverji ekur aðallega um á þeim slóðum hefur hann ekki upplifað neina vetrarfærð að ráði síðan hann fékk bílprófið á síðari hluta níunda áratugarins. Undantekning frá þessu er bílferð austur í sveitir í marsmánuði 2000 þegar Víkverji endaði úti í móa með ökutæki sitt eftir tapaða glímu við hálku. Ekki urðu teljandi meiðsl á fólki.

En á Ísafirði eru göturnar ósaltaðar og snjórinn þekur þær. Að sjálfsögðu eru þær mokaðar eftir föngum svo ekki sé ófært fyrir fólksbíla. Snjórinn dregur úr ökuhraða og vetrardekkjanotkun er almenn. Hávaði frá dekkjahvin er ekki til og umferðin er ekki eins yfirþyrmandi og einfaldlega drullug og hér syðra.

Víkverji er orðinn leiður á drulluslabbi með saltbragði. Leigubílstjóri nokkur stakk upp á því við Víkverja að þessum saltaustri yrði hætt og strætó settur á nagladekk. Fín hugmynd en yrðu einkabílstjórar þá ekki æfir? Snýst málið e.t.v. um frelsi til að þess að mega aka hratt á snjólausum götum?

Víkverji hefur löngum verið hrifinn af Hvalfirði sem útivistarsvæði. Þar er hægt að róa á kajak og fara í gönguferðir í Hvalfjarðarbotni. Mest hefur Víkverji stundað þetta að sumri til en svæðið býður líka upp á frábærar aðstæður til vetraríþrótta. Múlafjallið er allt þakið ís um þessar mundir og þar er ekki leiðinlegt að æfa sig í ísklifri.