TÍU íslensk náttúruverndarsamtök hafa í sameiningu gefið út Íslandskort undir heitinu "Ísland örum skorið", en kortið sýnir hvaða breytingar verða á miðhálendi Íslands ef stóriðjuáform stjórnvalda ná fram að ganga.

TÍU íslensk náttúruverndarsamtök hafa í sameiningu gefið út Íslandskort undir heitinu "Ísland örum skorið", en kortið sýnir hvaða breytingar verða á miðhálendi Íslands ef stóriðjuáform stjórnvalda ná fram að ganga. Kynningarfundur í tilefni af útgáfu kortsins verður haldinn á Hótel Borg á morgun, föstudag.

Fram kemur í fréttatilkynningu að markmið útgáfunnar sé að upplýsa almenning um virkjana- og stóriðjuáform stjórnvalda og hvaða breytingar á miðhálendi Íslands þau hafi í för með sér. Kortið sýni virkjunarkosti 1. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem gefin var út af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu 27. nóvember 2003.

"Ef standa á við orkufyrirheit stjórnvalda til stóriðju þarf að virkja allar helstu jökulár landsins með tilheyrandi uppistöðulónum. Við getum afstýrt þessu slysi," segir ennfremur.

Eftirfarandi samtök standa að útgáfu kortsins: Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglavernd, Náttúruvaktin, SUNN - Náttúruverndarsamtök Norðurlands, NAUST - Náttúruverndarsamtök Austurlands, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Náttúruverndarsamtök Vesturlands, Umhverfisverndarsamtök Skagafjarðar, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Félag um verndun hálendis Austurlands.

Aðrar leiðir til orkuöflunar

"Stórar vatnsaflsvirkjanir eru einfaldasta leiðin til raforkuframleiðslu fyrir orkufreka stóriðju. Þær eru hins vegar afar dýrkeyptar fyrir náttúru landsins. Skynsamlegasti kosturinn er að leggja stóriðjuáformin til hliðar og huga jafnframt að öðrum leiðum til orkuöflunar, t.d. djúpborunarvirkjunum sem valda minni náttúruspjöllum en vatnsaflsvirkjanir almennt gera. Þannig stöndum við vörð um náttúru landsins og nýtum best verðmæti þess til frambúðar. Kortið mun gagnast vel í allri fræðslu og umræðu um málefni miðhálendisins. Því verður dreift ókeypis á opinberum stöðum um allt land og fæst einnig hjá útgefendum," segir einnig.

Kynningarfundurinn hefst klukkan 13. Fundarstjóri er Ásta Arnardóttir leiðsögumaður og jógakennari. Dr Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur kynnir kortið og erindi flytja: Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og rithöfundur, Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður og rithöfundur og dr. Ragnhildur Sigurðardóttir líffræðingur.