[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Þór Gunnlaugsson gítar, Bob Wijen hammondorgel og Rene Winther trommur. (ww&t 001) 2004.

ÞAÐ ER dálítill munur á þessum tveimur orgeltríóum, hinu hollensk/íslenska og íslensk/sænska. Í því fyrrnefnda er orgelið ekki þungamiðjan heldur áferðarfallegur gítarleikur Andrésar Þórs. Bæði byggja að mörgu leyti á þeim fönkdjassi er spratt frá orgel/saxófónsveitum harðaboppsins og er gjarnan kenndur við hljómplötuútgáfuna Blue Note. Þó vantar þennan magnþrungna kraft sem heyra má í hörkuspilamennsku manna á borð við Jimmy Smith.

Andrés Þór er nýkominn úr námi frá Hollandi og hefur leikið þar mikið með þeim Wijen og Winther og tróðu þeir m.a. upp á Jazzhátíð Reykjavíkur í fyrra. Það vantar dálítið hörkuna í þetta tríó. Bob Wijen er of nettur organisti til að bera uppi tónlist sem að miklu leyti er samin í boppskotna fönkstílnum. Kannski er það þess vegna að André Þór er svo áberandi, kannski er hann bara einfaldlega besti djassari tríósins. Fyrsta lagið er eftir Wijen, Chase the spieder, boppskotið með ljúfum millikafla: betra er boppfönkað lag hans Ubergeil. Rúmlega helmingur tónsmíða Andrésar Þórs er í klassískum bopfunk-stíl, en svo hefur hann skrifað undurfagra ballöðu, Þórdísarljóð, svíngarann Clemency og gamalbopparann Smink. Skífunni lýkur á útsetningu Wijens á titillagi plötunnar eftir Edwin Drake og hefði ljóðið mátt ríkja þar. Takið ekki diskinn af strax því eftir nokkra þögn upphefst fönkið á ný. Sami leikur og á Flís-plötunni forðum. Helsti kostur þessa disks eru sólóar Andrésar Þórs, sem er þegar kominn í hóp bestu djassgítarleikara okkar.

Harka færist í boppfönkið.

Stefnt á fönkmiðin

Annar diskur orgeltríósins B3, Kör, er um margt ólíkur þeim fyrri. Sér í lagi hefur Agnar Már eflst sem orgelleikari og efnisskráin hefur breyst. Nú er stefnt á fönkmiðin með harðri og oft tilbreytingalítilli spilamennsku og dýnamíkin ekki það sem gildir. Fyrri plata tríósins skartaði mörgum frábærum lögum, sér í lagi eftir Agnar Má, en þeim hefur farið fækkandi þótt smá Davishrif læðist inn í fönkið í Cazooka bim, þarsem Seamus Blake blæs af öllum kröftum. Í Kör Ásgeirs fær hann að svínga hefðbundið og svo er Ballaða B eftir Ásgeir ljúf tilbreyting. Aftur á móti kom það mér á óvart að bestu lögin á diskinum eru eftir trommarann, Eric Qvick, sér í lagi Happy-Sand þar sem Seamus Blake fær að sýna hvað í honum býr. Verkið hefst í frjálsu formi þar sem menn leika einstaklega vel saman og síðan læðist sveiflan inn í leikinn á fullkomlega eðlilegan hátt. Love theme Qvicks er einnig fínt verk og gítarleikur Ásgeirs skemmtilega ólíkur því sem við eigum að venjast frá hans hendi.

Þetta er ansi misjöfn plata en þótt það væri ekki nema vegna Qvick-ópusanna tveggja er hún allrar athygli verð. Ásgeir og Agnar leika vel að vanda, en það veikir dálítið íslensku orgeltríóin að menn spila bassann með vinstri hendi á orgelið. Það er víst bara Þórir Baldursson sem notar fótbassann í djassi.

Vernharður Linnet