Gunnlaugur Júlíusson
Gunnlaugur Júlíusson
Gunnlaugur Júlíusson fjallar um kjarasamning fyrir blaðbera: "Meðal annars má minna á að DV er metið þyngdarlaust þar sem það er ekki vigtað með þegar greiðslur til blaðbera fyrir þyngdarálag eru reiknaðar út."

NOKKUR umræða hefur átt sér stað í fjölmiðlum að undanförnu varðandi Impregilo, ítalska stórfyrirtækið sem vinnur að byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Fjölmiðlar fylgjast grannt með stöðu mála þar eystra og eru fljótir til ef eitthvað fréttnæmt er á ferðinni. Nú snýst umræðan um hvort fyrirtækið greiði starfsmönnum sínum laun eftir íslenskum kjarasamningum eða ekki. Í því sambandi hafa verið nefndir kínverskir verkamenn sem fyrirtækið hefur hug á að ráða til starfa. Laun á Íslandi eru vafalaust há í þeirra augum ef miðað er við kjör í þeirra heimalandi. Í þessu sambandi hefur verið nefnt að samkeppnisstaða þeirra fyrirtækja sem fara eftir kjarasamningum sé harla veik ef önnur fyrirtæki komast upp með að hunsa þá hina sömu kjarasamninga og undirbjóða þá sem spila eftir reglunum, meðal annars með því að ráða starfsfólk á lægri launum en kjarasamningar kveða á um. Forystumenn ASÍ hafa eðlilega lagt á það þunga áherslu að fyrirtækið virði íslenska kjarasamninga og fari eftir þeim. Þeir hafa jafnvel hótað því að verði Impregilo látið komast upp með hluti sem samtökin séu ósátt við þá geti það haft áhrif á gerð kjarasamninga á hausti komanda. Félagsmálaráðherra hefur að nokkru leyti tekið undir orð þeirra og telur óforsvaranlegt að láta fyrirtækið komast upp með að fara ekki eftir íslenskum kjarasamningum ef að sú reynist raunin. Hvað kemur þetta málefnum blaðbera við? Það munu vera um 10 ár síðan blaðberar fóru að berjast fyrir því að fá formlegan kjarasamning gerðan við vinnuveitendur sína. Lítið gekk í upphafi en við frágang kjarasamninga árið 2000 var sett í viðauka að stefnt skyldi að því að ljúka gerð kjarasamnings fyrir blaðbera hið fyrsta. Enn liðu nokkur ár en þar kom að í apríl 2003 gerði Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, kjarasamning vegna blaðbera sinna við Verslunarmannafélag Reykjavíkur. Stór áfangi í kjarabaráttu blaðbera náðist með þessum samningi. En síðan hefur ekki mikið gerst. Þau fyrirtæki sem annast dreifingu Fréttablaðsins ehf. og DV hins endurborna hafa alfarið neitað að ganga til kjarasamninga við VR vegna blaðbera sinna en þeir eru um 1200 talsins. Ég hef spurst fyrir um þessi mál hjá einstökum verkalýðsfélögum og svörin eru: "Þeir vilja ekki tala við okkur og þá getum við ekkert gert." Frétt ehf., Dreifing ehf. eða Pósthúsið ehf. eða hvað það fyrirtæki heitir hverju sinni sem ræður blaðbera til að bera út Fréttablaðið og DV auk ótölulegs fjölda og gríðarlegs magns auglýsingabæklinga ákveður starfskjör, laun og vinnuálag blaðbera einhliða. Ef blaðberar eru ekki sáttir við það sem þeim er boðið upp á í vinnuálagi eða launum er svarið ósköp einfalt: "Af hverju hættirðu ekki bara að bera út?" Mér er sem ég sæi viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar og fjölmiðla ef Impregilo byði sínu starfsfólki upp á slíkt vinnuumhverfi og ræki þá starfsmenn síðan umsvifalaust úr starfi sem ekki væru sáttir og réði aðra sem sættu sig við það sem í boði væri. Morgunblaðið hefur sett sér ákveðnar reglur um hámark á þyngd blaða og fyrirferð þeirra. Því virðast aftur á móti lítil takmörk sett hvað Fréttablaðið (eða dreifingarfyrirtæki þess) telur sig geta ætlast til af blaðberum sínum hvað fjölda eintaka (blöð og auglýsingabæklingar) og þyngd þeirra varðar. Álagið í desember sl. sló öll met í því sambandi. Minna má á að DV er metið þyngdarlaust þegar greiðslur til blaðbera fyrir þyngdarálag eru reiknaðar út. Til skamms tíma braut Fréttablaðið (eða dreifingarfyrirtæki þess) landslög þegar það réð börn niður í sjö ára aldur í vinnu. Eftir að Vinnueftirlit ríkisins gekk í málið voru aldursmörk blaðbera sett við 13 ára aldur eins og lög landsins heimila. Morgunblaðið ræður ekki yngri blaðbera en 18 ára þar sem blaðið metur það svo að útburður blaða sé ekki á færi barna nú til dags. Morgunblaðið greiðir blaðberum 13.25 kr. fyrir hvert eintak af sérmerktum útburði s.s. Viðskiptablaðinu. Fréttablaðið bauð blaðberum sínum aftur á móti 5 kr pr. eintak fyrir sams konar útburð. Það liggur í augum uppi að samkeppnisstaða þess fyrirtækis er lakari sem gert hefur formlegan kjarasamning og spilar eftir reglunum heldur en þess fyrirtækis sem ákveður einhliða starfsumhverfi og starfskjör starfsmanna sinna út frá eigin hagsmunum. Þess vegna verður að verja stöðu þeirra fyrirtækja sem hafa gert kjarasamning við starfsfólk sitt gagnvart þeim fyrirtækjum sem vilja ekki gera slíka samninga. Tilvera kjarasamningagerðar byggist á því að kjarasamningur komi ekki í bakið á þeim sem vilja spila eftir ákveðnum leikreglum. Fyrst að verkalýðsforystan hefur snúið trukknum í gang og búin að reka í framdrifið vegna umræðunnar gagnvart Impregilo, þá þótti mér hæfa að vekja athygli þeirra á stöðu blaðbera Fréttablaðsins fyrst af stað er farið á annað borð. Ég á ekki von á að það vefjist fyrir þeim að klára þetta smámál fyrst þeir ætla sér í hólmgöngu við Impregilorisann. Ég á hins vegar ekki von á því að fréttamenn fjalli um mál blaðbera af sömu kostgæfni og stöðu starfsmanna við Kárahnjúka en það er önnur saga.

Gunnlaugur Júlíusson fjallar um kjarasamning fyrir blaðbera

Höfundur er hagfræðingur og faðir blaðburðardrengs.