Japanski fiðlarinn Akiko Suwanai mundaði "Höfrunginn" á æfingu með Sinfóníuhljómsveit Íslands í gærdag.
Japanski fiðlarinn Akiko Suwanai mundaði "Höfrunginn" á æfingu með Sinfóníuhljómsveit Íslands í gærdag. — Morgunblaðið/Þorkell
SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT Íslands fær til sín tvo mæta gesti í kvöld þegar japanski fiðluleikarinn Akiko Suwanai leikur með sveitinni fiðlukonsert nr. 2 eftir Sergej Prokofíev.

SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT Íslands fær til sín tvo mæta gesti í kvöld þegar japanski fiðluleikarinn Akiko Suwanai leikur með sveitinni fiðlukonsert nr. 2 eftir Sergej Prokofíev. Með Suwanai í för er ein af frægustu fiðlum veraldar, "Höfrungurinn" svokallaði, sem ítalski fiðlusmiðurinn Antonio Stradivari smíðaði árið 1714, en Suwanai er með fiðluna í láni hjá japönsku stofnuninni Nippon Music Foundation.

Efnisskrá tónleikanna hefst á sinfóníu nr. 6 eftir Josef Haydn, sem nú er flutt í fyrsta skipti hér á landi. Því næst hljómar fiðlukonsertinn og eftir hlé er svo þráðurinn tekinn upp að nýju í Sjostakovitsj-hringnum og nú er komið að sinfóníu nr. 6. Það er Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri SÍ, sem stýrir tónleikunum.

Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og kennari í tónlistarfræði við LHÍ, segir fiðlukonsert Prokofief án efa einn vinsælasta fiðlukonsert tuttugustu aldar. "Hann er einstaklega lagrænn og fallegur, bæði er mikið af stórkostlega fallegum syngjandi línum og hann gefur einleikaranum mörg tækifæri til að leika listir sínar tæknilega," segir Árni. "Hann sameinar í raun allt sem prýða má einn konsert. Auðvitað gerir það hljóðfæraleikaranum alltaf lífið auðveldara að spila á gott hljóðfæri, þegar maður fær það á tilfinninguna að hljóðfærið vinni með manni og hjálpi manni frekar en hitt, þá gefur það flutningnum nýja vídd. Það er alltaf gaman að heyra fólk spila á góð hljóðfæri."

Verk fullt af andstæðum

Árni segir sjöttu sinfóníu Sjostakovitsj vera mjög óvenjulegt verk. "Í sinfóníum sínum er Sjostakovitsj alltaf að feta mjög þröngan veg á milli þess að vera flokkslínunni trúr og að segja það sem honum býr í brjósti," segir Árni. "Nokkrum árum áður en hann samdi sjöttu sinfóníuna hafði hann fallið í ónáð og var kallaður öllum illum nöfnum fyrir tónlist sína, en hafði tekist að bæta fyrir "afbrot sín" með fimmtu sinfóníunni. Í sjöttu sinfóníunni er að finna einhverjar þær mestu andstæður sem er hægt að hugsa sér. Hún byrjar á mjög þunglyndislegum kafla, þar sem er eins og Sjostakovitsj tali upp frá hjartanu og það er varla að finna nokkra vonarglætu í tónlistinni. En í seinni tveimur köflunum slær hann öllu upp í grín. Þetta er ekki hetjutónlist eins og sovésk tónskáld áttu helst að semja, heldur meira sirkussprell, fíflagangur og trúðslæti. Í rauninni næst aldrei nein endanleg niðurstaða í þessu verki, þessir tveir heimar eru í raun ósamrýmanlegir. Það er það sem gerir þessa sinfóníu bæði merkilega og óvenjulega."

Árni mun kynna sjöttu sinfóníuna fyrir vinum Sinfóníuhljómsveitarinnar á Hótel Sögu í kvöld kl. 18.

Akiko Suwanai vakti alþjóðlega athygli 1990 þegar hún vann Tsjajkovskíj-keppnina í Moskvu aðeins 17 ára gömul og varð þar með yngsti viðtakandi fyrstu verðlauna frá upphafi þessarar virtu keppni. Eftir sigurinn lauk hún námi sínu, m.a. hjá hinum fræga fiðlukennara Dorothy DeLay í Juilliardskólanum í New York, en hefur síðan skapað sér nafn sem einn fremsti fiðluleikari sinnar kynslóðar, þekkt fyrir einstaklega fallegan tón og ljóðræna nálgun við tónlistina. Akiko leikur reglulega í Evrópu, Ameríku og Asíu, en hún er geysivinsæl í föðurlandi sínu, Japan. Á síðustu misserum hefur Akiko Suwanai m.a. leikið með Berlínarfílharmóníunni undir stjórn Charles Dutoit, komið fram á Páskahátíðinni í Lucerne undir stjórn Pierres Boulez og farið í tónleikaferðir með Philharmonia Orchestra og Tékknesku fílharmóníunni ásamt Vladimir Ashkenazy.

svavar@mbl.is