24. júní 1992 | Miðopna | 532 orð

Minningarsjóður um Jean Pierre Jacquillat: Þóra Einarsdóttir söngkona hlaut

Minningarsjóður um Jean Pierre Jacquillat: Þóra Einarsdóttir söngkona hlaut fyrsta styrkinn Þóru Einarsdóttur, söngkonu, hefur verið veittur 600 þúsund króna styrkur úr Minningarsjóði Lindar hf., um Jean Pierre Jacquillat hljómsveitarstjóra, sem lést af...

Minningarsjóður um Jean Pierre Jacquillat: Þóra Einarsdóttir söngkona hlaut fyrsta styrkinn Þóru Einarsdóttur, söngkonu, hefur verið veittur 600 þúsund króna styrkur úr Minningarsjóði Lindar hf., um Jean Pierre Jacquillat hljómsveitarstjóra, sem lést af slysförum í Frakklandi sumarið 1986. Sjóðurinn var stofnaður í apríl árið 1987 af eignaleigufyrirtækinu Lind hf., en er nú sjálfstæð sjálfseignarstofnun. Þetta í fyrsta sinn sem styrkur er veittur úr sjóðnum og bárust stjórninni 39 umsóknir. Fjöldi gesta voru viðstaddir afhendinguna, er fram fór í safni Sigurjóns Ólafssonar í gær. Þeirra á meðal var frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands.

Þóra Einarsdóttir hefur stundað söngnám við Söngskólann í Reykjavík frá ársbyrjun 1988, og hefur hún lokið 8. stigi söngnáms frá skólanum. Aðalkennari hennar þar var Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Þá hefur Þóra sótt námskeið í Osló og verið við nám í Skotlandi. Hún tók stúdentspróf af tónlistarbraut Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1991. Að auki hefur hún tekið þátt í kórstarfi og sungið hlutverk í ýmsum óperum. Hún var og nýverið einsöngvari í Messíasi á Listahátíð.

Þóra söng tvö lög eftir Gabriel Fauré og aríuna Draumavals Júlíu úr Rómeó og Júlíu eftir Gounod, fyrir gesti. Vakti söngur hennar fögnuð viðstaddra.

Cecile Jaquillat, ekkja Jean Pierre Jaquillat, afhenti styrkinn. "Það veit ég, að Jean Pierre hefði notið þess að heyra þessa rödd, og ekki hefði honum þótt verra að sjá hve falleg þú ert," sagði hún.

"Ég er afar þakklát fyrir að vera sýndur þessi heiður," sagði Þóra. Hún kvaðst nú stefna að næsta áfanga í söngnáminu, en hún stóðst inntökupróf í Guildhall School of Music & Drama í London þar sem hún mun hefja framhaldssöngnám í haust. Að því loknu hyggst Þóra stunda framhaldsnám í óperusöng.

"Hlutverk sjóðsins er að styrkja tónlistarfólk til að afla sér aukinnar menntunar og reynslu á sviði tónlistar og jafnframt er það hlutverk sjóðsins að halda nafni Jean Pierre Jacquillat á lofti og því merka framlagi sem hann lagði til íslenskra tónlistarmála sem aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil," sagði Erlendur Einarsson formaður Minningarsjóðsins í ræðu sinni. "Þá vildi stjórn Lindar ekki síður heiðra minningu mikils Íslandsvinar, sem með störfum sínum ávann sér virðingu og vináttu fjölmargra Íslendinga."

Jean Pierre Jacquillat fæddist í Versölum 13. júlí árið 1935. Að loknu námi í Conservatorie National Superieur de Musique í París var hann ráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri hjá hinum þekkta stjórnanda Charles Muench við Sinfóníuhljómsveit Parísar. Hann stjórnaði fjölda tónleika í Frakklandi og víðar, auk þess sem hann hóf að hljóðrita franska tónlist, starf sem hann sinnti af miklum áhuga, sagði Erlendur. Árið 1970 var hann ráðinn aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Anger í Frakklandi og ári seinna aðalhljómsveitarstjóri óperunnar í Lyon og Rhone-Alpes-hljómsveitarinnar. Sagði Erlendur að árangur hans í Lyon hafi leitt til þess að honum var boðið að stjórna óperuuppfærslum víða um heim.

Jean Pierre kom fyrst til starfa með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1972 en var síðan ráðinn aðalhjólmsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar árið 1980 og gegndi því starfi til loka starfsársins 1985 til 1986. Var það fyrir hans tilstilli að hljómsveitin fór í tónleikaferð til Frakklands árið 1985. Jafnframt starfi sínu á Íslandi stjórnaði hann hljómsveitum víða um heim og einnig mörgum óperum í París.

Morgunblaðið/Sverrir

Þóra Einarsdóttir, til hægri, tekur við styrknum úr hendi Cecile Jaquillat. Hjá þeim stendur Erlendur Einarsson, formaður Minningarsjóðsins.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.