Almenningsvagnar bs. taka til starfa: Samstarf í fólksflutningum á öllu höfuðborgarsvæðinu NÝTT fyrirtæki í almenningssamgöngum, Almenningsvagnar bs., AV, mun taka til starfa á morgun, laugardag.

Almenningsvagnar bs. taka til starfa: Samstarf í fólksflutningum á öllu höfuðborgarsvæðinu

NÝTT fyrirtæki í almenningssamgöngum, Almenningsvagnar bs., AV, mun taka til starfa á morgun, laugardag. Starfsvettvangur þess eru fólksflutningar á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Reykjavík og Seltjarnarnes. Samstarf verður nokkuð milli Almenningsvagna og Strætisvagna Reykjavíkur og fyrstu merki þess eru mánaðarkort, Græn kort svokölluð, sem munu gilda í allar ferðir þessara tveggja samgöngufyrirtækja.

Almenningsvagnar bs. er byggðasamlag sveitarfélaganna Bessastaðahrepps, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kjalarneshrepps, Kópavogs og Mosfellsbæjar. Fyrirtækin Hagvagnar hf. og Meiriháttar hf. munu sjá um aksturinn og hafa þau keypt 17 nýja strætisvagna til starfans. Auk þess að samræma strætisvagnaferðir í ofannefndum sveitarfélögum verður reynt að samræma ferðir við ferðir Strætisvagna Reykjavíkur.

Jafnframt er það markmið að samræma gjaldskrár fyrirtækjanna og byrjunin á því er sú að laugardaginn 15. ágúst verður byrjað að selja mánaðarkort í strætó svo kallað Grænt kort. Græna kortið gildir í 30 daga á öllum leiðum Almenningsvagna og SVR og mun kosta kr. 2.000 til 15. september en kr. 2.900 eftirleiðis. Grænu kortin fást á skiptistöðvunum við Lækjartorg, Hlemm, Mjódd, Grensás, skrifstofu SVR Borgartúni 35, söluturninum Hallanum Bókhlöðustíg, Bræðraborg í Hamraborg Kópavogi, Bitabæ Ásgarði 1 Garðabæ, Holtanesti Melabraut 11 Hafnarfirði og söluturninum Snælandi við Vesturlandsveg Mosfellsbæ.

Hjá AV munu einstök fargjöld fullorðinna kosta 100 kr. og tíu miða kort 900 kr., það sama og hjá SVR. Fyrir börn innan tólf ára kosta einstök fargjöld 50 kr. og tuttugu miða spjald 500 kr. Hægt verður að taka skiptimiða, sem gildir í 30-45 mínútur og börn innan 6 ára fá ókeypis í fylgd með fullorðnum.

AV ætlar að bjóða upp á næturferðir. Þá verður farið tvisvar á aðfaranótt laugardags og sunnudags frá miðbæ Reykjavíkur. Í þessar næturferðir, sem hefjast 4. september, kostar 200 kr. og hvorki miðar né græn kort munu gilda.

Á laugardag og sunnudag munu Almenningsvagnar bs. bjóða ókeypis í sína vagna og auk þess verður eftirfarandi dagskrá á laugardag:

Kl. 6.20 rennur fyrsti vagninn úr hlaði frá skiptistöðinni við Fjarðargötu í Hafnarfirði.

Kl. 15 hefst dagskráin á tveimur stöðum. Á skiptistöðinni við Fjarðargötu í Hafnarfirði mun fulltrúi Hafnarfjarðar þakka Landleiðum fyrir þá þjónustu, sem fyrirtækið hefur veitt og í Bessastaðahreppi, við Bjarnastaði, mun fulltrúi Bessastaðahrepps þakka Erlendi Björnssyni sérleyfishafa fyrir unnin störf.

Kl. 15.15 þakkar fulltrúi Garðabæjar Landleiðum við Bitabæ í Garðabæ og í Mosfellsbæ við Hlégarð mun fulltrúi Mosfellsbæjar þakka Mosfellsleiðum samstarfið.

Kl. 15.30 þakkar fulltrúi Kópavogs Strætisvögnum Kópavogs fyrir þeirra þjónustu.

Kl. 16 munu þeir Sveinn Björnsson fyrir hönd SVR og Örn Karlsson fyrir hönd AV skrifa undir samstarfssamning fyrirtækjanna.

Kl. 16.20 verður lagt af stað með fulltrúa sveitarstjórnanna og gesti þeirra frá skiptistöð í Mjódd um akstursleiðir AV í Reykjavík að Lækjartorgi.

Kl. 17 verður komið saman í Félagsheimili Kópavogs og boðið upp á léttar veitingar.