Seiður lífs og dauða MYNDLIST Bragi Ásgeirsson Í Kjarvalssal hefur undanfarnar vikur staðið yfir sýning á verkum Alfreðs Flóka Nielsen, sem listasafn Reykjavíkur eignaðist eftir lát hans, auk mynda sem vinir hans hafa gefið til safnsins.

Seiður lífs og dauða MYNDLIST Bragi Ásgeirsson Í Kjarvalssal hefur undanfarnar vikur staðið yfir sýning á verkum Alfreðs Flóka Nielsen, sem listasafn Reykjavíkur eignaðist eftir lát hans, auk mynda sem vinir hans hafa gefið til safnsins. Það var vel til fallið af menningarmálanefnd að yfirtaka þetta samsafn mynda, efna til sýningar, og gefa svo almenningi kost á því að kynnast þeim.

Yngri kynslóðir hafa ekki upplifað Flóka á sama hátt og samtíðarmenn hans og munu ekki gera, en þessi sýning ætti að gefa þeim nokkra innsýn inn í list hans og hugarheim.

Umheimurinn er allt annar en þegar þessar myndir komu fyrst fram hér á útskerinu, og þóttu svo djarfar að jaðraði við siðleysi, en nú virka þær frekar sem holdtekja sakleysisins miðað við svo margt sem við blasir í fjölmiðlum og þá ekki síst á sjónvarpsskjánum, að ekki sé vísað til djörfustu kvikmynda síðustu ára. Og fyrir vikið nálgast hinir yngstu myndheim Flóka á allt annan hátt og væri næsta fróðlegt að gera nokkra útekt á því.

Þessi sýning verka listamannsins hefur enda, eftir öllum sólarmerkjum að dæma, ekki vakið neina þá athygli og umræður sem sýningar hans sjálfs hér áður fyrr gerðu og munar hér nokkru, að hinn hugumstóri og orðfrjói listamaður er hvergi nærri.

Ekki telst framtakið marktækt yfirlit á ferli Flóka, sem varla var tilgangurinn, en gefur þó góða innsýn í myndheim hans, mettaðan dulúð og kynngi í bland við heimsbókmenntir náheima og dárahyggju, efnislegum nautnum sem ófreskum hugarórum.

Alfreð Flóki lést langt fyrir aldur fram 18 júní 1987, aðeins 49 ára að aldri, og hafði þá lengi haft sérstöðu í íslenzkri myndlist sem eini íslenzki teiknarinn, sem tengja má alfarið við súrrealisma og táknhyggju og jafnframt eini atkvæðamikli íslenzki myndlistarmaðurinn sem einvörðungu lagði fyrir sig risstæknina. Mér vitandi málaði hann aldrei eftir að skólanámi lauk, en notaði hins vegar ýmsar tegundir af litkrít og þá aðallega rauðkrít. Mest vann hann þó í bleki og kolkrít og var mjög fastheldinn á vinnubrögð, svo að jafnvel jaðraði við meinlæti.

Starfsvettvangi Flóka má líkja við lítinn jurtagarð, sem listamaðurinn ræktaði af mikilli kostgæfni, þannig að það tók allan tíma hans og orku. Þennan garð, þar sem hann þekkti hverja urt er óx úr moldu, vildi hann hafa útaf fyrir sig, og kærði sig aukinheldur ekki um neinar athafnir utan hans.

Snemma bar á því að Flóki vildi fara sínar eigin leiðir, sem var djarft fyrirtæki á þeim tímum, er hin óhlutstæða og óformlega list réði ríkjum í fjölmiðlum, og enginn þótti maður með mönnum nema að vera með á nótunum. Eru þetta einkenni einangraðra þjóðfélaga, og vísast nokkurs konar varnarhjúpur yfir ósjálfstæði, ásamt neyðarlegri minnimáttarkennd gagnvart stærri þjóðfélögum og viðteknum sannindum sem frá þeim koma.

Af þeim sökum átti Flóki lengi vel erfitt uppdráttar á heimavelli, því óspart var gert gys af öllum "undanvillingum" frá ímynduðum stórasannleik tímanna. Og þótt líkt sé ástatt á hinum Norðurlöndunum mun þetta einna mest áberandi á Íslandi, vegna fámennisins og einangrunarinnar, og að myndlist hefur til skamms tíma nær einvörðungu verið metin og iðkuð á afmörkuðum landskika, þ.e. höfuðborgarsvæðinu.

Ég fylgdist vel með Flóka alla tíð og hafði nokkurn metnað fyrir hans hönd, því hann var í fyrsta hópnum sem ég kenndi grafík í Handíðaskólanum um miðbik sjötta áratugarins. Taldi ég mig strax sjá drjúga hæfileika í honum til grafískra vinnubragða, því ég fann í þessum manni ríka kennd fyrir samspili grátónaheimsins og hinna hvítu og svörtu andstæðna.

En það átti þó ekki fyrir honum að liggja að hagnýta sér grafíktæknina, sem ég taldi alltaf og tel enn mikinn skaða, því sá tækniheimur hefði opnað honum margar nýjar dyr að leyndardómum svartlistarinnar.

Það hefur lengi verið haft fyrir satt, að einkenni grafíklistarinnar séu þau, að í hvert sinn sem einhver, eftir miklar sviptingar og bardús, nær langþráðu marki, opnist honum sýn til margra nýrra áfanga í viðbót og mun það vera nærri lagi, eða svo staðfestir í öllu falli reynsla mín.

Við þau viðteknu sannindi fór Flóki því miður á mis og veit ég eiginlega ekki af hverju hann laðaðist aldrei að grafík, en ég veit hins vegar að uppi var þungur áróður fyrir því á þessu tímaskeiði, að menn gætu náð öllu því með pennanum eða kolkrítinni sem mögulegt væri í grafíkinni, en það er misskilningur, því slík er sérstaða grafíklistarinnar.

Hins vegar er mögulegt að ná mjög langt með pennanum, kolkrítinni og rissblýinu, en nær allir þeir sem hafa gert það til svipmikilla afreka hafa einnig unnið í grafík.

Til eru teiknarar, sem hafa staðið utan við hræringar nútímans, en þó náð heimsfrægð, og vil ég hér einvörðungu vísa til Þjóðverjans Horst Janssens sem býr í Hamborg, vegna þess, að ég finn til nokkurs skyldleika í lífi og list hjá þeim starfsbræðrum.

En Horst Janssen býr í miljónaborg og á sér dyggan hóp aðdáenda og velunnara. Örlög hans hefðu hugsanlega orðið svipminni ef hann hefði fæðst á Íslandi og frami hans með öðrum hætti, því allur gróður þarf vaxtarskilyrði. Og á sama hátt má vel ætla að örlög Flóka hefðu orðið önnur ef hann hefði fæðst í miljónaborg erlendis, þar sem menningin er í hávegum höfð, eða í öllu falli notið meiri skilnings og uppörvunar en hér heima.

Að vísu eignaðist Flóki einnig hóp aðdáenda, trygga vini og velunnara, og fremstur í þeim hópi var án efa móðurbróðir hans, hinn sérstæði háttvísi og mildi persónuleiki Stefán Þórir Guðmundsson, sem lést á sl. sumri. Þessi aðdáendahópur náði út fyrir landsteinana, en listamaðurinn var lítið að hugsa um það, hér skorti hann mjög ráðhollan og athafnasaman umboðsmann.

Á tímabili var drjúgur uppgangur hjá Flóka með sýningum í Bogasal Þjóðminjasafnsins og ýmissi útgáfustarfsemi. Um árabil voru þessar sýningar hans í Bogasalnum reglulegur viðburður og minnist ég þess hve þær voru yfirleitt vel sóttar, og oftar en ekki var ungt kvenfólk í meirihluta er mig bar að garði, er rýndi stíft á rissin, og sveif inn í draumakenndan, ástþrunginn myndheim hins sérstæða listamanns og margræða munnháks.

Flóki var fróður maður og vel lesinn og sló um sig í blaðaviðtölum og var ómyrkur í máli varðandi myndlist almennt og hafði þar ákveðnar skoðanir. Jafnframt var hann þungorður í garð gagnrýnenda, sem var lenska á þeim árum sem oftar.

Þeim sem lásu þessi lífmiklu viðtöl mun fæstum hafa dottið í hug, að hér fór afar feiminn persónuleiki, sem notaði gífuryrðin sem eins konar brynju og varnarskjöld. Við vorum t.d. alla tíð ágætir kunningjar og fór vel á með okkur þótt ekki væri hann alltaf ánægður með skrif mín. Hann vék því raunar að mér eitt sinn, að ég skyldi ekki taka of mikið mark á því sem hann segði í blöðunum - þetta væri til að skemmta almenningi.

Ég fullvissaði hann um það, að ég tæki þetta ekki of alvarlega, hló svo og sagði; en vonandi fylgir öllu gamni einhver alvara hjá þér eins og öðrum . . .

Það var hin hreina og næma lína sem var aðal mynda Flóka ásamt hinum opnu skuggum og komu þessir eiginleikar gleggst fram í penna- og rauðkrítarmyndum hans. Það er nefnilega mikil list að framkalla opinn og djúpan skugga kolsvart lifandi tóm sem eins og hefur svip af djúpu og áþreifanlegu myrkrinu, og þá verða hinir ljósu fletir í myndheildinni hreinni og bjartari. Fátt særir góðan teiknara meir en lokaðir og klúðurslegir skuggar og óhreinn grátónaheimur, og það krefst eðlilega mikillar skynrænnar þjálfunar að ná þeim árangri sem fram kemur í hrifmestu myndum Flóka.

Það má til sanns vegar færa, að myndir hans bera sterkan svip af bókmenntum, þær eru yfirleitt þrungnar frásögnum og jafnvel einföld andlitsmynd kemur hugarfluginu á hreyfingu. Á stundum kveður svo rammt að þessu að sumar þær myndir, sem ekki fela í sér neinar beinar efnislegar opinberanir né athafnir á kynórasviðinu, virka ástþrungnari og höfða meira til skoðandans. Í öllu falli eru þær óræðari um leið og eitthvað í þeim ýtir við lífrænum kenndum manns.

Ég held að Flóki hafi um sumt dregið sig inn í skel sína síðustu árin sem hann lifði og einhvern veginn gustaði ekki eins af honum og áður. Þannig kom þetta mér fyrir sjónir en getur þó verið rangt, því svo kunnugur lífi hans var ég ekki, að ég geti fullyrt neitt hér um. Leiðir okkar Flóka lágu saman í Kaupmannahöfn vorið 1984 og hitti ég hann nokkrum sinnum. Hann var þá að vinna að ákveðnu verkefni og vildi gjarnan að ég liti á teikningarnar. Varð að samkomulagi að ég heimsækti hann í íbúð sem hann leigði af vini okkar Sigurði Oddgeirssyni, er þá bjó í Kulusuk.

Við lágum svo yfir þessum teikningum allt kvöldið jafnframt því sem við dreyptum á hvítvíni.

Eitthvað var gestgjafinn ekki ekki fullkomlega ánægður, þótt ég léti góð orð falla um ýmislegt í teikningunum og talaði þá eins og fagmaður við fagmann.

Sjálfur var hann auðsjáanlega ekki meira sáttur en svo við árangurinn, að er líða tók á kvöldið fór hann að gráta og byrgði höfuðið í höndum sér og var óhuggandi.

Ég sá þann kost vænstan að halda á braut, en bar mun meiri virðingu fyrir Flóka alla tíð eftir það. Hugsaði margt í strætisvagninum á leiðinni heim og minntist m.a. þess sem sellósnillingurinn Pablo Casals hafði að orðtæki: "Þeir sem geta ekki grátið, geta ekki heldur skapað mikla list."

Hugur mannsins, sem fæðir af sér andríki og skapandi kenndir er skilja eftir sig líf og gróandi, telst ekki í þéttu formi sem stál og steinsteypa, ei heldur harka og óbilgirni, frekar ólgandi kvika - tilfinningahiti og hamslaus ást til þess sem lifir og hrærist.

Alfreð Flóki við eina af myndum sínum.