Orgel Hallgrímskirkju afhjúpað í gær "Hljómurinn eins og ég hafði vonast til" ­ segir Hans-Gerd Klais orgelsmiður STÆRSTA og fegursta hljóðfæri sem Íslendingar hafa eignast var afhjúpað í gær í Hallgrímskirkju.

Orgel Hallgrímskirkju afhjúpað í gær "Hljómurinn eins og ég hafði vonast til" ­ segir Hans-Gerd Klais orgelsmiður

STÆRSTA og fegursta hljóðfæri sem Íslendingar hafa eignast var afhjúpað í gær í Hallgrímskirkju. Vinnupallar sem fram að þessu hafa hulið orgelið eru horfnir og blasir það nú við í allri sinni dýrð. Það var Klais Orgelbau í Bonn sem sá um hönnun og smíði orgelsins, en það fyrirtæki er meðal þeirra virtustu á þessu sviði í heiminum og er einkum þekkt fyrir smíði stærri orgela. Útlit orgelsins tekur mið af byggingarstíl Hallgrímskirkju og eru stærstu sjáanlegar pípur um 10 metrar á hæð.

Í tilefni þess að vinnupallar höfðu verið teknir niður kom forstjóri Klais Orgelbau, Hans-Gerd Klais, til landsins til að sjá orgelið fullsamsett í fyrsta sinn. Við stutta athöfn í Hallgrímskirkju lék Hörður Áskelsson organisti á hið mikla hljóðfæri og lýsti Klais ánægju sinni við það tækifæri og sagði að hljómurinn væri einmitt eins og hann hafði vonast til að hann yrði.

Stærstu sjáanlegar pípur eru 10 metrar á hæð og mynda tóna við lægstu mörk mannlegrar heyrnar. Láréttir lúðrar sem ganga inn í kirkjuna eru hluti af röddum sem kallast spænskir trompettar og eru með kraftmestu pípum orgelsins. Pípurnar sem sjást eru allar úr tin- og blýblöndu.

Orgelhúsið sjálft er ekki síður tilkomumikið. Er það á fjórum hæðum, smíðað úr gegnheilli eik og að baki þess er sérstakur tvöfaldur glerveggur í stað timburveggs, sem varpar öllum hljóm inn í kirkjuna. Hönnun og smíði veggjarins er íslensk. Sagði Klais að þetta væri í fyrsta sinn sem fyrirtæki hans smíðaði orgel þar sem menn gætu virt fyrir sér innri byggingu þess utan frá.

Klais Orgelbau í Bonn var stofnað fyrir 110 árum og er Hans-Gerd Klais af fjórðu kynslóð Klais orgelsmiða. Orgelið í Hallgrímskirkju er þriðja stærsta orgelið sem Klais Orgelbau hefur smíðað og eru aðeins stærri orgel að finna í Ástralíu og Japan. Sem dæmi um stór og þekkt Klaisorgel má nefna orgelin í dómkirkjunum í Altenberg, Ingolstadt, Limburg, Trier og Würzburg í Þýskalandi, í tónleikahúsunum í München, Köln, Delaware í Ohio í Bandaríkjunum og Brisbane í Ástralíu. Starfsmenn Klais Orgelbau leggja nú síðustu hönd á frágang pípna orgelsins og stillingar, og verður orgelið vígt 13. desember næstkomandi.

Í tengslum við uppsetningu nýja orgelsins hafa verið gerðar breytingar á kirkjunni sem stórbæta hljómburðinn. Nýir bekkir hafa verið settir í kirkjuskipið og panell og hjóðskermar settir fyrir ofna og upp í hliðarloft og kórdyr.

Morgunblaðið/Þorkell