Gullið fyrir 5.000 plötur SAMBAND hljómplötuframleiðenda hefur ákveðið að hækka viðmiðanir fyrir afhendingu gull- og platínuplatna vegna hljómplötusölu. Nú verður veitt gullplata fyrir 5.000 seld eintök, í stað 3.000, og platínuplata fyrir 10 þúsund...

Gullið fyrir 5.000 plötur

SAMBAND hljómplötuframleiðenda hefur ákveðið að hækka viðmiðanir fyrir afhendingu gull- og platínuplatna vegna hljómplötusölu. Nú verður veitt gullplata fyrir 5.000 seld eintök, í stað 3.000, og platínuplata fyrir 10 þúsund eintök í stað 7.500.

Í frétt frá Sambandi hljómplötuframleiðenda kemur fram, að þessar viðmiðunartölur eru með því hæsta sem þekkist miðað við höfðatölu. Til samanburðar er bent á, að væri sama viðmiðun notuð og í Bandaríkjunum væri gullplata afhent hér fyrir sölu 500 eintaka í stað 5.000. Þá kemur fram, að miðað við Norðurlönd er þetta hlutfall rúmlega helmingi hærra en þar gerist.

Í fyrra var metsala á íslenskri tónlist, eða 50% meiri en árið 1990. Útgefendur búast við að salan í ár verði svipuð og í fyrra.