Heilsuleir beint í örbylgjuofn Selfossi.

Heilsuleir beint í örbylgjuofn Selfossi.

TILRAUNIR hjá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði með leirbakstra úr íslenskum jarðefnum hafa gefist mjög vel og nú er í undirbúningi að hefja framleiðslu á leirbökstrum í hentugum umbúðum til sölu fyrir almenning. Í undirbúningi er stofnun lítils fyrirtækis um framleiðslu leirbakstra og heilsufæðis.

Tilraunir með leirbakstrana hafa staðið yfir í heilt ár undir forystu og fyrir tilstuðlan þýsks nuddara sem vinnur hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, Wolfgangs Rolings. Búið er að prófa blönduna og finna út rétta blöndu í bakstrana sem gefast mjög vel. Vísindaleg rannsókn verður unnin í tengslum við Ulrike Morits, prófessor í Lundi í Svíþjóð, til þess að finna út eiginleika íslensku jarðefnanna sem notuð eru í leirblöndunni en það eru að uppistöðu vikur og leir.

Leirbakstrarnir eru unnir eftir erlendri fyrirmynd en hitameðferð með leirbökstrum við gigt, vöðvabólgu og fleiri kvillum er aldagömul og löngu viðurkennd erlendis.

Sala á leirbökstrunum byggist á því að fólk geti keypt sér bakstrana, hitað þá upp, til dæmis í örbylgjuofni, og lagt þá við húðina. Gert er ráð fyrir að nota megi hvern bakstur nokkrum sinnum.

Auk leirbakstranna er í undirbúningi framleiðsla á heilsufæði, ýmsum samsetningum á morgunmat og tedrykkjum úr íslenskum jurtablöndum.

Sig. Jóns.

Morgunblaðið/Sigurður Jónsson

Guðmundur Björnsson læknir og nuddkonurnar Elke Bruns og Monika Ernst með heitan leirbakstur.