Byggðamál Rekstur Byggðastofnunar var hallalaus í fyrra Rætt við Guðmund Malmquist forstjóra Byggðastofnunar um breyttar áherslur á starfsemi stofnunarinnar og afkomuna á síðastliðnu ári BYGGÐASTOFNUN var rekin rekin án halla á síðastliðnu ári.

Byggðamál Rekstur Byggðastofnunar var hallalaus í fyrra Rætt við Guðmund Malmquist forstjóra Byggðastofnunar um breyttar áherslur á starfsemi stofnunarinnar og afkomuna á síðastliðnu ári

BYGGÐASTOFNUN var rekin rekin án halla á síðastliðnu ári. Árið áður var hins vegar 687 milljóna króna tap á rekstinum. Þetta má þakka breyttum áherslum í starfseminni þar sem nú verður að gæta þess á hverju ári að eigið fé Byggðastofnunar rýrni ekki. Forstjóri Byggðastofnunar, Guðmundur Malmquist, er ánægður með árangur síðasta árs en segir þó að ekki sé ætlunin að reka starfsemina með hagnaði. "Þetta er þjónustustofnun sem er ætlað að veita fjármagni út í atvinnulífið en jafnframt á stofnunin að fara vel með sitt fé."

Árið 1992 var fyrsta heila árið sem unnið var eftir breyttum lögum og nýrri reglugerð hjá Byggðastofnun. Stofnuninni er með þeim ætlað að gera rekstraráætlun þar sem markmiðið á að vera það að eigið fé stofnunarinnar rýrni ekki. Eigið fé Byggðastofnunar var liðlega 1 milljarður króna í lok árs 1991. Áætlun var gerð í byrjun ársins og að sögn Guðmundar Malmquist lítur nú út fyrir að sú áætlun standist í öllum megindráttum. Reksturinn sé á núlli og eigið fé rýrni ekki.

Í fyrra var skipulega dregið úr beinum útlánum. Til marks um það voru útlán á árinu 1991 1.220 milljónir króna en um 900 milljónir í fyrra, þar af voru útborguð ný lán 575 milljónir. Á síðastliðnu ári tók Byggðastofnun við umsjón með atvinnuráðgjöfum fyrir hönd ríkisins og kostaði hluta ríkisins í því starfi. Til þeirrar starfsemi fóru 25 milljónir króna á árinu og búið er að samþykkja sömu fjárhæð á árinu 1993. Alls námu beinir styrkir hins vegar um 85 milljónum króna á síðastliðnu ári sem er einnig lægri upphæð en árið 1991."

Atvinnuþróunarstofnun og átaksverkefni

Guðmundur segir að helstu breytingar á milli áranna 1991 og 1992 séu þær að stofnuninni sé í auknum mæli ætlað að auka styrkveitingar til atvinnuþróunarstarfs og ýta undir nýsköpun. "Til marks um breytta stefnu eru nú í gangi 8 átaksverkefni víðs vegar um landið sem Byggðastofnun fjármagnar á móti heimamönnum. Ég tel að mismunandi aðferðir í tengslum við átaksverkefnin eigi að geta aukið bjartsýni og skapað ný störf. Árangurinn er erfitt að mæla en nokkrum verkefnum er þegar lokið og í kjölfarið voru 2 eða 3 ný fyrirtæki sett á laggirnar.

Almennt má segja að átaksverkefni reyni með mjög skipulögðum hætti að leita að hugmyndum til nýsköpunar hjá íbúum og fyrirtækjum viðkomandi staða og í framhaldi af því er unnið í verkefnahópum til að hrinda því í framkvæmd. Ekki má líta á þessi átaksverkefni sem eina allsherjarlausn á vandamálum landsbyggðarinnar heldur verður að líta á aðferðafræðina sem verkfæri sem getur leitt til nýsköpunar og þróunar."

Fyrir utan átaksverkefnin voru á sl. ári veittir sérstakir styrkir til ýmissa kannana á nýjum atvinnukostum, t.d. í sambandi við gulllax, ígulker, glerál og ullarverkefni. Þá hafa verið veittir styrkir til stefnumótunarverkefna í ferðamálum og til nýsköpunar og hagræðingar. Þar má nefna samstarf við Tækniskólann og Háskóla Íslands.

Ný skrifstofa verður opnuð

á Sauðárkróki

Með nýjum vinnubrögðum hefur uppbygging Byggðastofnunar tekið nokkrum breytingum. Skrifstofur Byggðastofnunar á landsbyggðinni hafa í auknum mæli tekið við öllum samskiptum við lánþega og verkefnum hver á sínu svæði. Nú eru skrifstofur á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri og á næstunni er gert ráð fyrir því að ráða einn sérfræðing til Ísafjarðar og annan til Egilsstaðar. Einnig er gert ráð fyrir því að skrifstofa með tveimur starfsmönnum verði opnuð á Sauðárkróki á árinu.

Í samræmi við þetta fækkaði stöðugildum í Reykjavík niður í 20 í fyrra en þegar flest var voru þau yfir 30 talsins.

Byggðastofnun hefur nýlega sent frá sér byggðaáætlun til næstu fjögurra ára. Í henni er m.a. lögð áframhaldandi áhersla á eflingu atvinnuþróunarstarfs og samgöngusvæða. Einnig er fjallað um að vinnubrögðum við áætlanagerð hjá ríkinu þurfi að breyta. Langtímamarkmið verði sett og samræmd t.d. á milli ráðuneyta.

Byggðastofnun vill að opinber þjónusta og starfsemi hins opinbera verði aukin á landsbyggðinni en að sama skapi dregið úr henni á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni ríkisins eigi jafnframt að færa í auknum mæli til sveitarfélaganna.

Í hinni nýju skýrslu er einnig fjallað um að styrkja þurfi vöruþróun og markaðsmál fyrirtækja á landsbyggðinni og fyrirtækjanet. Sérstaklega er fjallað um ferðaþjónustu og þar segir að hún hafi verið í örum vexti að undanförnu en vegna afturkipps þar, eins og víðar í hagkerfinu, sé þó nauðsynlegt að fara varlega í fyrirgreiðslu til fyrirtækja og einstaklinga sem vilja hasla sér völl.

Einnig er talið mikilvægt að kanna hvort hægt sé að kaupa erlend fyrirtæki og flytja þau til landsins. Í samræmi við þetta eru lokaorð skýrslunnar þau að undirbúa þurfi átak til að auka áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta hér á landi.

Sambland af ráðgjöf

og lánveitingum

Þær hugmyndir hafa verið uppi að Byggðastofnun eigi einungis að sjá um almenna ráðgjafastarfsemi fyrir opinbera aðila en ekki lánafyrirgreiðslu eða styrki. Aðspurður um hvort að hann teldi þetta geta orðið framtíðarhlutverk stofnunarinnar sagðist Guðmundur ekki búast við því. "Það þarf að fara saman sambland af þessu tvennu. Ég er sammála því að Byggðastofnun var orðin allt of stór lánastofnun miðað við eiginfjárstöðu. Það hlaut að koma að því að stofnunin gat ekki lengur stundað svo mikla áhættulánastarfsemi án þess að fá meira framlag af fjárlögum. Hins vegar höfum við verið að þróa starfsemina í þá átt að vera heldur ráðgjafar- og upplýsingastofnun. Jafnframt höfum við tekið þátt í hagræðingaraðgerðum, stuðlað að sameiningu fyrirtækja og endurskipulagningu þeirra," sagði Guðmundur Malmquist forstjóri Byggðastofnunar.

ÁHB

FORSTJÓRINN - Guðmundur Malmquist

FRAMKVÆMDIR - Byggðastofnun leggur mikla áherslu á uppbyggingu vaxtarsvæða úti á landi, en þau svæði sem eiga að geta orðið vaxtarsvæði á næstu árum þurfa að hafa fullkomnar vegasamgöngur við þjónustusvæði sitt. Stofnunin leggur m.a. áherslu á að til slíkra svæða verði þjónusta hins opinbera flutt í auknum mæli.