Minning Jón Páll Sigmarsson Einn fræknasti íþróttakappi Íslendinga fyrr og síðar er fallinn í valinn. Fráfall hans er reiðarslag ekki síst fyrir þá sök að Jón Páll var ímynd hreystinnar, í blóma lífsins, atgervismaður til orðs og æðis. Jón Páll Sigmarsson var goðsögn í lifanda lífi og er og verður þjóðsagnapersóna í líkingu við fornar hetjur fyrri alda. Hreysti hans var annáluð, kraftur hans kynngimagnaður. Þegar þetta fór saman við hrífandi persónuleika og glæsilega framkomu, fór hróður hans víða og að verðleikum.

Jón Páll stundaði íþróttir frá unga aldri og íþróttir voru hans líf. Hann bar alls staðar af, hvort heldur í lyftingum, vaxtarrækt eða aflraunum. Hvarvetna jafnvígur og langfremstur.

hann var á sínum tíma kjörinn íþróttamaður ársins og hefði sjálfsagt oftar keppt um og hreppt þann titil ef kraftlyftingar og vaxtarrækt væru íþróttagreinar innan Íþróttasambands Íslands.

Það kom fyrir að slægi í brýnu milli hans og ÍSÍ, en þær erjur eru löngu gleymdar og íþróttaunnendur og íþróttafólk leit á Jón Pál sem einn úr sínum hópi. Hann var íþróttamaður af guðs náð, íþróttunum helgaði hann líf sitt og starfsorku. Í krafti íþróttaiðkana og íþróttaafreka mun nafn og orðstír Jóns Páls haldast á lofti.

Fyrir framlag hans til þeirra hugsjóna, fyrir afrek hans og hróður vill Íþróttasamband Íslands votta Jóni Páli þökk og virðingu.

Aðstandendum er vottuð samúð.

Ellert B. Schram,

forseti ÍSÍ.