Bragðmikið indónesískt kjúklingakarrí

Héðinn er afbragðskokkur.
Héðinn er afbragðskokkur. Íris Ann Sigurðardóttir/mbl.is

„Þessi réttur er, að mínu mati, algjört sælgæti – og er frekar fljótlegur. Ég hef sótt námskeið í matargerð í Víetnam, Taílandi og í Kína þar sem ég bjó á árum áður, en finnst þessi réttur einhvern veginn standa upp úr. Mögulega vegna þess að kanilstangirnar bjóða upp á einhvern keim sem maður finnur ekki í hefðbundinni matargerð,“ segir Héðinn Svarfdal Björnsson matgæðingur en hann er mjög nýjungagjarn í matreiðslu sinni og er óhræddur við að nota framandi krydd. Ekki láta langan kryddlistann fæla þig frá þessari uppskrift því hún er í raun ekki flókin og flest kryddin má kaupa á einum stað hvort sem er í asískum sérvöruverslunum eða Asíu-deildum stórmarkaða á borð við Hagkaup.

Héðinn bauð Matarvefnum heim í indónesíska veislu fyrir skemmstu – smelltu hér til að sjá fleiri uppskriftir frá Héðni.

Karrí verður seint fallegur matur en bragðgott er það.
Karrí verður seint fallegur matur en bragðgott er það. Íris Ann Sigurðardóttir/mbl.is

Tími:

Tekur 15 mín. að undirbúa og um 20 mín. að elda (en mér finnst samt alltaf betra að láta karrí malla mun lengur, t.d. í klukkutíma – og bæta þá við vökva eftir þörfum).

Hráefni:

1,5 kg kjúklingabringa – niðurskorin
2 tsk. mulin kóríanderfræ (duft)
1 tsk. mulið cumin
1 tsk. mulið túrmerik 1/8 tsk. malaður negull
4 stk. þurrkaður eldpipar (chili) – fjarlægja fræ, ef viljið ekki hafa sterkt
2 stk. ferskur grænn eldpipar (aftur fjarlægja fræ, ef rétturinn á að vera mildari)
¼ bolli kasjúhnetur 4 hvítlauksgeirar – flysjaðir og kramdir (eða mjög gróflega saxaðir)
1 skarlottulaukur (flysjaður)
5 cm af engifer – flysja og skera í sneiðar
3 msk. af olíu (t.d. sólblómaolíu)
5 límónulauf (fást frosin víða)
2 kanilstangir
3 stönglar af sítrónugrasi (merjið gjarnan)
1 bolli af kjúklingakrafti (gott að eiga heimalagaðan á lager í frysti)
1 dós af kókosmjólk
1 bolli baunabelgir (skornir í bita)
1 bolli gulrætur (saxaðar)
4 msk. af fiskisósu

Aðferð:

Setjið kryddið, eldpiparinn, kasjúhnetur, skarlottulauk og engifer í matvinnsluvél og maukið. (Einnig hægt að nota töfrasprota.) Hitið næst olíuna í Wok-pönnu (eða annarri stórri pönnu) á miðlungshita. Bætið svo kanilstöngum, límónulaufunum og sítrónugrasinu út í og steikið í u.þ.b. mínútu.

Skellið svo maukinu út í og hrærið öllu saman í um tvær mínútur. Bætið næst kjúklingnum út í og eldið þangað til allar hliðar eru orðnar ljósbrúnar. Bætið svo næst við helmingnum af kókosmjólkinni og öllum kjúklingakraftinum. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla í um 10 mínútur – eða þangað til kjúklingurinn er fulleldaður.

Bætið þá við gulrótunum og baunabelgjunum, restinni af kókosmjólkinni og fiskisósunni og látið malla í alla vega fimm mínútur til viðbótar (má vera lengur). Borið fram með hrísgrjónum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert