Besta súkkulaðikaka allra tíma

Hér erum við komin með uppskrift að bestu súkkulaðiköku allra …
Hér erum við komin með uppskrift að bestu súkkulaðiköku allra tíma sem kemur úr smiðju Elenoru Rós Georgsdóttur. Samsett mynd

Hér erum við komin með uppskrift að bestu súkkulaðiköku allra tíma sem kemur úr smiðju Elenoru Rós Georgsdóttur bakara sem hefur heillað landsmenn með útgeislun sinni og ljúffengum kræsingum. Súkkulaðikakan er mitt á milli þess að vera eins og frönsk súkkulaðikaka sem við elskum öll og klassísk kladdakaka. Hún er svo einföld að það ætti hver sem er að geta gert hana, svo silkimjúk að hún bráðnar í munni og algjörlega ómótstæðileg. Ekki skemmir fyrir að hún geymist líka mjög vel og því hentugt að gera hana fram í tímann. Þessi klikkar í öll bestu boxin.

„Ég er búin að vera þróa þessa ansi lengi og er loksins fullkomlega sátt enda búin að fá mjög góðar umsagnir frá öllum í kringum mig sem hafa smakkað kökuna í gegnum þróunarferlið. Ég fer ekki létt með þau orð að þessi kaka sé sú allra besta en ég segi það mjög örugg að þessi er bókstaflega kaka drauma minna. Svo djúsí og bragðgóð,“ segir Elenora og brosir sínu einlæga og fallega brosi. Elenora er iðin við að deila með fylgjendum sínum myndum og myndböndum af því sem hún er að galdra fram í eldhúsinu á Insgram-síðu sinni hér.

Hér kemur uppskriftin og upplagt er að gera kremið meðan kakan kólnar eftir baksturinn.

Besta súkkulaðikakan

Súkkulaðikaka

 • 3 egg
 • 160 g sykur
 • 180 g smjör
 • 180 g Freyju suðusúkkulaði
 • 60 g hveiti

Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 190°C.
 2. Bræðið smjörið og hellið brædda smjörinu yfir súkkulaðið. Hrærið saman þar til súkkulaðið er alveg bráðið og blandan er orðin silkimjúk og glansandi.
 3. Bætið hveitinu saman við súkkulaðiblönduna og hrærið vel með sleif.
 4. Þeytið næst saman sykur og egg í um það bil 3-5 mínútur eða þar til blandan er orðin létt og ljós.
 5. Blandið nú súkkulaðiblöndunni varlega saman við eggjablönduna með sleif.
 6. Setjið nú deigið í pappírsklætt og smurt form.
 7. Bakið kökuna í 18-20 mínútur. Kakan gæti litið út fyrir að vera ekki tilbúin en þannig á hún að vera. Þið vitið að kakan er tilbúin að koma úr ofninum þegar þið sjáið að kantarnir á kökunni eru bakaðir.
 8. Leyfið nú kökunni að kólna vel og jafna sig áður en hún er tekin úr forminu.

Mascarpone súkkulaðikrem

 • 220 g mascarpone
 • 100 g púðursykur
 • 60 g kakó
 • 300 g kaldur rjómi
 • Smá salt

Aðferð:

 1. Byrjið á að þeyta saman mascarpone, sykur, salt og kakó í u.þ.b 3 mínútur.
 2. Bætið næst rjómanum saman og þeytið áfram þar til þið eruð komin með sömu áferð og á léttþeyttum rjóma, ætti ekki að taka meira en tvær mínútur. Varist að ofþeyta ekki rjómann, betra er að þeyta minna en meira.
 3. Setjið nú kremið á kökuna, skerið niður í hæfilega stóra bita.
 4. Leyfið hugmyndafluginu að ráða för þegar þið berið kökuna fram og skreytið að vild.
Þessi er ómótstæðilega girnileg. Þeir sem elska súkkulaðikökur eiga eftir …
Þessi er ómótstæðilega girnileg. Þeir sem elska súkkulaðikökur eiga eftir að missa sig yfir þessari. Ljósmynd/Elenora Rós Georgsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert