Hollari skyrkaka sem þú verður að smakka

Silja Geirsdóttir hefur haft áhuga á mat og matargerð frá því hún man eftir sér. Hún er hársnyrtisveinn að mennt og lauk nýverið diplómanámi í heildrænni næringarfræði (e. holistic nutrition) í Lundúnum, en hún leggur mikið upp úr því að borða holla og næringarríka fæðu og hefur að undanförnu verið að prófa sig áfram með hollari útgáfu af hinum ýmsu eftirréttum. 

„Mínar bestu æskuminningar eru af mér og mömmu í eldhúsinu að búa saman til kvöldmat. Þegar ég fór svo til ömmu minnar á Ísafirði á sumrin þá bakaði ég mikið með henni, meðal annars kleinur og skinkuhorn,“ segir Silja.

„Í seinni tíð hef ég verið að fókusa meira á áhrif matar á líkamann og andlega heilsu og búa til uppskriftir í kringum það,“ bætir hún við. 

Silja lauk nýverið námi í heildrænni næringarfræði (e. holistic nutrition) …
Silja lauk nýverið námi í heildrænni næringarfræði (e. holistic nutrition) í Lundúnum.

Leggur áherslu á að borða hollt en elskar sætindi

Silja hefur verið dugleg að prófa sig áfram í eldhúsinu og hefur deilt nokkrum ljúffengum uppskriftum með fylgjendum sínum á TikTok. „Undanfarið hef ég mikið verið að baka glútenfría bananabrauðið mitt og svo á ég yfirleitt heimagerða „Twix“ bita með döðlukaramellu til í frystinum,“ segir hún. 

Spurð hvað henni finnist skemmtilegast að brasa í eldhúsinu segist Silja alltaf hafa verið meira fyrir það að elda þar sem það liggur vel fyrir henni. „Ég legg mikið upp úr því að borða hollt en á sama tíma elska ég sætindi og því hef ég nýlega verið að skora á sjálfa mig að baka meira og gera þá allskonar uppskriftir að eftirréttum en á aðeins hollari hátt,“ segir hún. 

Ein af uppskriftunum sem Silja hefur verið að þróa er ljúffeng skyrkaka sem varð óvænt til þegar hún var að fara að halda matarboð og áttaði sig á að hún hafði gleymt að kaupa inn í eftirrétt. „Ég notaði það sem ég átti til og er uppskriftin því frekar einföld og í miklu uppáhaldi á mínu heimili því það er hægt að gera hana alveg á sinn hátt,“ segir Silja. 

„Það er til dæmis hægt að hafa botninn þynnri, setja aðra ávexti og nota annað skyr. Kaffi-vanillu skyrið frá Kea er einnig mjög gott og þá er æðislegt að nota perur í stað banana,“ bætir hún við. 

Skyr eftirréttur Silju

 • 1 pakki hafrakex
 • 1 tsk. kanill
 • 1 tsk. salt
 • 1/2 tsk. kardimomma
 • 50-70 g smjör
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 100 g þeyttur rjómi
 • 300 g salt karamellu Kea skyr
 • 1-2 stk. banani
 • Bláber til að skreyta með
 • Súkkulaði til að skreyta með

Aðferð:

 1. Setjið hafrakex og krydd í blandara (eða myljið á annan hátt) og hellið svo blöndunni í form og dreifið vel úr. 
 2. Bræðið smjör og hellið yfir kexið. 
 3. Pressið kexinu þétt niður til að búa til botninn – hér er t.d. gott að nota botninn á glasi til að pressa blöndunni vel niður.
 4. Þeytið rjómann og þegar hann er tilbúinn er vanilludropum og skyri blandað saman við hann.
 5. Setjið 1/3 af skyrblöndunni yfir kexbotninn og dreifið vel úr. 
 6. Skerið banana í sneiðar og raðið ofan á skyrblönduna. 
 7. Setið restina af skyrblöndunni yfir bananasneiðarnar og dreifið vel úr.
 8. Notið bláber og 90% súkkulaði til að skreyta.
Hægt er að leika sér með uppskriftina, t.d. með því …
Hægt er að leika sér með uppskriftina, t.d. með því að nota mismunandi ávexti og bragðtegundir af skyri.
Hráefnin eru einföld.
Hráefnin eru einföld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert