Bernaise-sósa í blandara á mínútum

Þóra Sigurðardóttir rithöfundur og þúsundþjalasmiður var gestur í eldhúsi Matarvefjarins að þessu sinni. Við Þóra erum líklega eitt vafasamasta tvíeyki eldhússögunnar og líklega er ekki hægt að kalla okkur annað en Eldhúsdólgana. Þóra er enginn sérstakur kokkur en hefur mikið dálæti á mat og kann alls kyns reddingar til að eyða sem minnstum tíma við eldavélina. 

Það gekk á ýmsu í eldhúsinu, ég er enn með brunasár en lærði að gera bernaise-sósu á fáránlega stuttum tíma og það í blandara! Við reyndar fórum ekki eftir eigin uppskrift en engu að síður var sósan mjög góð sem segir mér að bernaise-sósa sé mun sveigjanlegri en fólk vill meina. Svo er snilld að setja 2 msk. af bernaise-sósu út í 1 dl af grískri jógúrt fyrir þá sem vilja léttari útgáfu með matnum (sorrý Þóra).

Alsæl bernaise-bomba trítar sig.
Alsæl bernaise-bomba trítar sig. mbl.is/tm

Bernaise í blandara 
fyrir 2 gráðuga

300 g smjör ósaltað – brætt
3 eggjarauður 
3 msk. fáfnisgras (estragon)
1/4 tsk. cayenne-pipar
1 tsk. salt
1/2 tsk. pipar
1 tsk. lime-safi
1 msk. bernaise-essens

Bræðið smjörið. Þeytið eggjarauðurnar vel í blandaranum. Hellið smjörinu mjög varlega saman við. Bætið essensnum og lime-safanum við. Kryddið eftir smekk og hrærið saman. 

Ath. smjörið þarf að kólna aðeins og ná sirka stofuhita áður en því er hellt saman við. 

Ef hita á sósuna upp þarf að gera það hægt svo hún skilji sig ekki. 

Fersk og góð sósa á nokkrum mínútum.
Fersk og góð sósa á nokkrum mínútum. mbl.is/tm
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert