Brjálaðar brúnkur að hætti Sollu og Hildar

Tahini-brúnkurnar eru í mjög miklu uppáhaldi hjá þeim mæðgum.
Tahini-brúnkurnar eru í mjög miklu uppáhaldi hjá þeim mæðgum. mbl.is/maedgurnar.is

„Sesamkeimurinn blandast ríkulegu súkkulaðibragðinu sérlega vel. Og þegar við bítum í kökurnar er áferðin svona örlítið klístruð og seig en á sama tíma mjúk og dásamleg.
Mmm... og stökkar ristaðar heslihnetur,“ segja Sólveig Eiríksdóttir eða Solla á Gló og Hildur dóttir hennar í nýrri færslu á bloggsíðu sinni. Tahini-brúnkurnar eru í mjög miklu uppáhaldi hjá þeim mæðgum en þetta eru ekki dísætar bombur, bara svona passlega svakalega góðar brúnkur að þeirra sögn. 

„Þegar við bökum köku viljum við að sjálfsögðu að hún sé góð á bragðið. Það er algjört grundvallarhlutverk köku að vera ljúffeng. Og okkur mæðgum finnst gott að gæða okkur á góðri köku. En í okkar huga þarf góð kaka hvorki að fara yfir strikið í lúxusnum né vera fullkomlega holl og heilög. Okkur finnst nefnilega fínt að blanda þessu svolítið saman, svo lengi sem útkoman er bragðgóð og við njótum kökusneiðarinnar og líður vel af henni,“ segja þær mæðgur en tahini er sesamsjör. „Einhverjum gæti þótt tahini of bragðmikið, þá er um að gera að skipta því út fyrir möndlusmjör, sem er mun mildara og hlutlausara á bragðið.“

1 krukka tahini (1 bolli)
2 bollar kókospálmasykur
2/3 bolli möndlumjólk
2 msk. kókosolía
2 tsk. vanilla
2 ½ bolli haframjöl, malað fínt í mjöl (í kryddkvörn eða matvinnsluvél)
¾ bollar kakóduft
1 msk. vínsteinslyftiduft
½ bolli ristaðar og saxaðar heslihnetur

Hrærið tahini, möndlumjólk, kókosolíu, kókospálmasykri og vanillu saman í hrærivél.

Blandið möluðu haframjölinu, kakódufti og vínsteinslyftidufti saman í skál og setjið svo rólega út í hrærivélina, á meðan hún er að hræra.

Bætið að lokum ristuðum heslihnetunum varlega út í deigið.

Setjið bökunarpappír í form, við notuðum 24x29 cm.

Hitið ofninn í 175°C og bakið í ca. 20 mínútur.
Njótið!
mbl.is