Ekki öllum hleypt inn í Costco

Nú líður senn að opnun Costco eins og landsmenn vita og við hjá matarvef mbl.is brugðum okkur í vettvangsferð vestur um haf til að sjá hvernig verslunin virkar í reynd. Við vorum ekki búin að skrá okkur sem félaga og því vorum við strax í töluverðum vandræðum þar sem einungis félagar fá aðgang að versluninni. Það er því ljóst að forvitnum verður ekki hleypt inn til að skoða – nema vera í fylgd með félögum.

Í okkar tilfelli vorum við í fylgd með félaga þannig að við komumst klakklaust inn í verslunina eftir að hafa útskýrt að við værum í góðum félagsskap.

Það sem við blasti var undurfagurt. Gríðarlegt úrval af alls konar vörum á mjög góðu verði. Verslunin er svæðisskipt og hægt var að kaupa tölvur, síma, dekk, fatnað, matvöru, heimilisvöru, bækur og ýmislegt annað. Við mælum með að þið gefið ykkur góðan tíma í fyrstu skiptin sem þið farið þangað inn enda má búast við að það muni margt nýtt bera fyrir augu.

Ekki dugar heldur að smygla sér inn því einnig þarf að framvísa aðildarkortinu þegar verslað er og þegar blaðamaður hugðist borga fyrir vörurnar var það ekki hægt heldur þurfti handhafi kortsins að borga. Góðu fréttirnar eru síðan þær að félagar geta verslað í Costco hvar sem er í heiminum. 

mbl.is