Svona áttu að grilla steik

Ljósmynd/Bon Appetit

Þar sem grillvertíðin er formlega gengin í garð er ekki úr vegi að fara yfir nokkur mikilvæg tækniatriði sem skipta sköpum þegar góða grillsteik gjöra skal. Ef þú ferð eftir þessum reglum er nánast 100% öruggt að máltíðin verður vel heppnuð og þú mögulega krýndur Grillmeistarinn 2017.

1. Stofuhiti

Lykilatriði er að steikin sé ekki köld þegar hún fer á grillið. Taktu hana úr kæli að minnsta kosti klukkutíma áður. Ef hún er köld verður yfirborðið fínt en að innan gæti hún orðið ansi grá og dapurleg.

2. Þykktin skiptir máli

Því þykkari sem steikin er því meiri og betri eldunarmöguleika býður hún upp á. Sérfræðingarnir tala margir hverjir um að hafa hana hnausþykka eða 4-5 sm. Það sem þykktin gerir er að hún býður upp á þann magnaða möguleika að hafa kjötið vel grillað og stökkt að utan en lungamjúkt og jafnvel blóðugt að innan.

3. Salt, salt og aftur salt

Nokkrum tímum áður en þú grillar skaltu léttsalta báðar hliðar steikarinnar með salti. Settu hana helst á grind þannig að saltið nái að vinna sínu vinnu. Það sem saltið gerir er að halda vökvanum í kjötinu sem tryggir að steikin verður safaríkari. Þerraðu steikina með eldhúspappír áður en hún fer á grillið og saltaðu upp á nýtt. Notaðu sjávarsalt, helst í fremur grófum flögum því þá verður „skorpan“ betri.

4. Malaðu þinn eigin pipar

Pipar er gríðarlega mikilvægur því hann gefur steikinni bæði meira bragð og stökkari „skorpu“. Best er að vera með mismunandi stærðir af pipar, það er bæði fín-, miðlungs- og grófmulin korn. Sérfræðingarnir segja að best sé að taka heil piparkorn og méla þau með þungri pönnu. Þannig verði þau eins og best verður á kosið.

5. Hafðu tvö hitasvæði á grillinu

Best er að hafa brennandi heitt til að grilla kjötið almennilega og síðan aðeins mildari hita til að klára eldunina. Þetta er fremur auðvelt þegar um gasgrill er að ræða en getur verið ögn flóknara í útfærslu þegar notast er við kol. Þá er upplagt að nota grilltangirnar til að hlaða kolunum meira öðru megin til að stýra hitadreifingunni aðeins.

6. Hitinn og höndin

Hvernig veistu hvort kolin eru tilbúin? Um leið og logarnir hafa slokknað og kolin eru glóandi skaltu nota 5-2 regluna. Settu höndina 5 sm yfir kolin. Ef þú getur haldið hendinni þar í tvær sekúndur (hvorki meira né minna) eru kolin tilbúin.

7. Hafðu stjórn á logunum

Fitan á það til að brenna af og gera allt vitlaust. Eins yndislegur og eldurinn er þá viljum við ekki rústa steikinni með því að flambera hana. Reyndu því að passa upp á þetta og þegar vitleysan byrjar skaltu frekar færa steikina á logalaust svæði en gera það mjúklega þannig að fitan leki ekki af og úr verði annað bál.

8. Notaðu alvörukol

Þetta er alvörumál. Kolin þurfa að vera í lagi. Ef þau eru ekki í lagi kemur vont bragð af matnum. Þú vilt framkalla þetta dásamlega reykbragð sem við elskum öll, ekki kemíska þvælu sem eyðileggur matinn.

9. Ekki giska

Nema þú sért atvinnumaður sem getur þuklað á steikinni af það mikilli kunnáttu að þú vitir nákvæmlega hvernig henni líður að innan, skaltu fjárfesta í kjöthitamæli. Það skiptir í alvörunni máli. 

10. Leyfðu kjötinu að hvíla

Það verður aldrei of oft tönnlast á mikilvægi þess að hvíla kjötið eftir grillunina. Trefjarnar í kjötinu herpast saman á grillinu og ef það er skorið í því ástandi lekur allur vökvinn út. Ef þið gefið þeim hins vegar tíma til að slaka á þá verður liturinn dýpri, bragðið sterkara og safaríkur bitinn mun bráðna upp í ykkur. Munið: Þið eruð komin þetta langt. Ekki klúðra því á lokametranum.

Verði ykkur að góðu!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert