Huggulegt hakkabuff að hætti Svövu

Svava Gunnarsdóttir er hrifin af huggulegum heimilismat.
Svava Gunnarsdóttir er hrifin af huggulegum heimilismat. mbl.is/ljufmeti.com

Svava Gunnarsdóttir á ljufmeti.com er komin heim frá Balí og byrjuð að elda heimilismatinn sem við öll elskum. „Mér þykir svona heimilismatur alveg hreint dásamlega góður og sérstaklega núna þegar það eru nýjar kartöflur í búðunum. Við létum okkur nægja að bera hann bara fram með nýjum kartöflum og sultu en bæði hrásalat og ferskt salat fer auðvitað stórvel með,“ segir Svava en við mælum með þessu dásamlega hakkabuffi hennar.

Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu (uppskrift fyrir 4)

  • 600 g nautahakk
  • 1/2 dl brauðrasp
  • 1/2 dl rjómi
  • 1 dl mjólk
  • 1 egg
  • 1 laukur
  • 2 tsk. salt
  • svartur pipar
  • 1 tsk. sykur

Blandið rjóma, mjólk og brauðraspi saman í skál og látið standa í 5 mínútur. Setjið hakkaðan lauk, egg, salt, sykur og pipar saman við og notið töfrastaf til að blanda öllu saman. Setjið að lokum nautahakkið saman við og blandið öllu vel saman. Mótið buff og steikið upp úr vel af smjöri.

Karamelluseraður laukur

  • 3 gulir laukar
  • salt
  • sykur
  • pipar
  • smjör

Skerið laukinn þunnt niður. Bræðið smjör á pönnu og setjið laukinn á. Steikið við miðlungshita (passið að hafa hitann ekki of háan), laukurinn á að mýkjast og fá smá lit. Hrærið annað slagið í lauknum. Setjið salt, sykur og pipar eftir smekk undir lokin og látið laukinn karamelluserast.

Rjómasósa

  • steikingakraftur frá hakkabuffinu
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 1-2 grænmetisteningar
  • salt og pipar
  • sojasósa
  • maizena til að þykkja

Blandið öllu saman í pott og látið sjóða saman. Smakkið til! Endið á að þykkja með maizena eftir smekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert