Streitulosandi skyrterta á tuttugu mínútum

Það er haustþema í þætti dagsins í bland við íslenskt þema og því ætla þær stöllur Þóra og Tobba að galdara fram kjarngóða kjötsúpu og streitulosandi skyrköku á mettíma.

Kjötsúpu þarf vart að kynna en það auðveldar óhjákvæmilega lífið að þurfa bara að bæta kjöti og grænmeti út í pottinn. Kryddjurtirnar auka nefnilega flækjustigið til muna og það er enginn tími fyrir það svona rétt fyrir saumaklúbb.

Í eftirrétt er boðið upp á forláta skyrköku sem Þóra fullyrðir að sé sérlega streitulosandi. Af hverju kemur í ljós í þættinum en óhætt er að segja að útkoman komi á óvart.

Kjötsúpa (Fyrir 4)

800 g lambagúllas
1 pakki íslensk kjötsúpa frá TORO
1,8 l vatn
1 stk. laukur, saxaður
400 g rófur
250 g gulrætur
100 g hvítkál
2 msk. lambakraftur
Salt og pipar eftir smekk

Lambagúllasið léttsteikt.
Vatninu hellt í pott og hitað að suðumarki. Innihaldi kjötsúpupakkans sett út í og hrært saman við vatnið. 

Grænmetið skorið í hæfilega bita og sett í pottinn.
Soðið saman og hrært reglulega í um 30 mínútur.

Þær gefa ekkert eftir í lekkerheitum þótt aðkeypt aðstoð komi …
Þær gefa ekkert eftir í lekkerheitum þótt aðkeypt aðstoð komi við sögu. mbl.is/

Streitulosandi skyrkaka

Botn:

 • 200 gr. kex (í þættinum var notað Holmeblest)
 • 100 gr. bráðið smjör

Kaka:

 • 500 ml vanilluskyr
 • 250 ml rjómi
 • 1 pk Royal-vanillubúðingur
 • Líkjör eftir smekk (í þættinum var notað Kalúha)

Aðferð:

 1. Mölvið kexið annaðhvort í höndunum eða í matvinnsluvél og setjið í form.
 2. Bræðið smjörið og hellið yfir kexið. Blandið vel saman og þjappið vel í botninn.
 3. Setjið í kæli yfir nótt ef sá tími er fyrir hendi. Ef ekki skaltu geyma botninn inn í frysti uns skyrblandan er tilbúin.
 4. Þeytið rjómann.
 5. Blandið skyrinu varlega saman við.
 6. Blandið vanillubúðingnum varlega saman við og að lokum skal setja líkjörinn út í.
 7. Hellið yfir botninn og geymið í kæli eins lengi og kostur er (í þættinum beið hún í 10 mínútur).
 8. Berið fram með einhverju huggulegu eins og karamellusósu og ferskum berjum.
Þóra og Tobba.
Þóra og Tobba. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert