„Á svona stað þarf að vera fjölbreytni.“

Ása Kristín Helgadóttir og Tómas Þóroddsson með heimakaðar tertur að …
Ása Kristín Helgadóttir og Tómas Þóroddsson með heimakaðar tertur að hætti hússins. Sigurður Bogi Sævarsson

„Á kaffihúsum þarf að vera hlýlegur bragur og heimilisleg stemning. Gólfflöturinn hér er ekki stór en á móti kemur að hér er hlýlegt andrúmsloft og góð stemning. Gestum finnst notalegt að heyra marrið í timurfjölunum þegar gengið er um gólf þessa húss, sem er eitt það elsta á Selfossi,“ segir Tómas Þórodsson á Kaffi krús á Selfossi. Staðurinn er 25 ára um þessar mundir og vegna þessa hefur verið bryddað upp á ýmsu skemmtilegu að undanförnu, svo sem tilboðum af matseðli.

Uppáhelling í boði

Tíðindum þótti sæta haustið 1992 að austur á Selfossi var opnað kaffihús, það fyrsta utan höfuðborgarsvæðisins að talið er. Anna Árnadóttir sem að þessu stóð þótti framúrstefnukona og margir höfðu efasemdir um framtakið. „Ég man að einhverjir sögðu að svo víða væri í boði uppáhelling og tíu dropar af kaffi að þetta væri algjör óþarfi. Enginn færi að kaupa kaffi og svona rekstur bæri sig aldrei. Annað átti þó eftir að koma á daginn,“ segir Tómas sem tók við rekstrinum árið 2010. Við veitingastarfsemi á Selfossi hefur hann starfað í um þrjátíu ár.

Kaffi krús er í næsta húsi austan við verslunarhús Krónunnar á Selfossi; það er að Austurvegi 7 sem er háreist timburhús, byggt árið 1934. Eldhús er í kjallara, en í salarkynnum á jarðhæð og í risi eru sæti fyrir alls 68 manns. Á seðli dagsins eru allra handa heimabakaðar tertur, kökur og brauðréttir, skyndibitar og eldbakaðar pitsur svo eitthvað sé nefnt.

„Á svona stað þarf að vera fjölbreytni. Gestir vilja hafa úr mörgu að velja,“ segir vertinn.

Rekur þrjá veitingastaði

Tómas rekur alls þrjá veitingastaði á Selfossi sem eru nánast hver við hliðina á öðrum. Þetta eru Kaffi krús, hollustustaðurinn Yellow sem er í sama húsi og Krónan og við Ölfusárbrúna er Tryggvaskáli sem er veitingastaður af fínni sortinni.

„Þessir þrír staðir á sömu þúfunni eru auðvitað hver öðrum ólíkari, en að grundvöllur sé fyrir starfsemi þeirra allra endurspeglar að Selfossbær hefur gjörbreyst á ekki löngum tíma. Ég rakst um daginn á gamlar myndir teknar um 1990 á miðjum degi af Austurveginum, sem er aðalgatan hér í bænum, og þar sést ekki einn einasti bíll á ferðinni. Í dag er hins vegar endalaus umferð alla daga í gegnum bæinn og margt ferðafólk sem gjarnan kemur á Kaffi krús. Hjá mörgu af heimafólki er líka fastur liður að líta hér inn; sumir vinahópar mæta alltaf einu sinni í viku á sama tíma,“ segir Tómas sem nú undirbýr að bæta aðstöðuna á sólpallinum sunnan við kaffihúsið. Stendur til að það verði yfirbyggt að hluta, og bekkir og borð verða sett upp – svo þar geti fólk fengið sér veitingar og kaffi úr krús.

Kaffi krús er að austurvegi 7 í miðbænum á Selfossi, …
Kaffi krús er að austurvegi 7 í miðbænum á Selfossi, einu af elstu húsunum þar í bæ.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert