Kvartar undan illa siðuðum börnum

Guðrún Á. Símonardóttir.
Guðrún Á. Símonardóttir. mbl.is/Merkir Íslendingar

Sú var tíðin að menn notuð servíettur í hvert mál og gerðu það vel. Stórsöngkonan Guðrún Á. Símonar var þó á öðru máli og skrifaði dásamlegt bréf í Velvakanda þar sem hún kvartar undan því að „sérvéttumenning“ sé á mjög lágu stigi.

Bréfið er svohljóðandi:

Hvernig væri að nota munnþurrkur?

Frú Guðrún Á. Símonar

Kæri Velvakandi!

Ég er ein af þeim mörgu sem les Velvakanda mér til mikillar ánægju. 3. janúar skrifaði Sigríður Sigurðardóttir um Valash-bletti og bað um ráð, hvernig ætti að ná þeim úr jólafötum barna hennar.

Mig langar að gefa frú Sigríði mjög einfalt en gott ráð hvernig ekki á að fá bletti í barnafatnað. Ég á dreng sem er 6 ára, hann drakk Valash yfir jólahátíðina, –engir blettir, ekkert gult í kringum munninn. Mitt einfalda en góða ráð er, kennið börnum yðar að nota sérvettur.

Því miður er „sérvéttumenningin“ á mjög lágu stigi hérna. Hérna láta börnin sér nægja að sleikja fingurna eða þurrka sér í fatnaðinn.

Virðingarfyllst,

Guðrún Á. Símonar

Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson.
Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Albert Eiríksson, herramaður með meiru, hefur hér ritað góðar leiðbeiningar um hvernig beri að nota servíettur enda mikilvægt að nota þær rétt enda viljum við síst búa á stað þar sem sérvéttumenningin er á lágu plani.

Servíettur – hvernig skal nota þær og hvað er óæskilegt. Servíettur eru einnig nefndar munnþurrkur og pentudúkur heyrðist í gamla daga. Þegar við erum sest til borðs, og áður en þjónarnir koma með diskana, tökum við servíettuna úr brotunum og leggjum hana tvöfalda í kjöltuna (ef servíettan er lítil leggjum við hana óbrotna í kjöltuna). Það er óþarfi að hrista hana úr brotunum með látum.

  • Ef servíetturnar eru í þar til gerðum servíettuhringjum leggjum við hringinn fyrir ofan gafflana, eða fyrir ofan diskinn, vinstra megin við glösin.
  • Við notum servíettuna til þess að þerra munninn, ekki til að þurrka af afli frá vinstri til hægri eða öfugt.
  • Servíettan fer aðeins í hálsmálið ef við erum að borða mat sem gæti frussast út allt eða við þurfum að beita afli eins og þegar við brjótum humarhala.
  • Ef eitthvað fer niður á dúkinn má bjarga málum með því að grípa servíettuna og þurrka upp og fá síðan nýja servíettu hjá þjóninum.
  • Ef við þurfum að bregða okkur frá leggjum við servíettuna í stólinn, á stólarminn eða stólbakið og ýtum stólnum að borðinu. Það er merki til þjónanna um að við höfum brugðið okkur frá en komum aftur.
  • Þegar máltíð er lokið leggjum við servíettuna vinstra megin við diskinn (eða þar sem diskurinn var), það er merki til þjónanna um að við séum búin og farin.
  • Konur passa að varalitur fari ekki í servíettuna.
  • Það ætti nú ekki að þurfa að nefna að við notum servíettuna sem vasaklút.
mbl.is/
mbl.is