Súkkulaðiflipp fyrir fermingarveislu

Súkkulaðikökufísaskó.
Súkkulaðikökufísaskó. mbl.is/VsV

Hér gefur að líta fjórar forkunnarfagar hnallþórur af bestu gerð sem allar eiga það sameiginlegt að vera súkkulaðikökur.

Tilefnið var fermingarveisla sem að undirrituð tók algjörlega sjálviljug og óneydd að sér að baka fyrir. Fyrirmælin voru einföld. Einungis súkklaðikökur og ekkert vesen.

En þannig virkum við ekki. Ef það er ekki smá vesen þá er þetta hreinlega ekki jafn skemmtilegt. Því var ákveðið að auka flækjustigið ögn með því að vera með nokkrar mismunandi útgáfur af súkkulaðikökum. 

Ákveðið var að baka fjórar hnallþórur og síðan tvær tveggja hæða skúffukökur. Þar sem ég er fremur léleg í að baka frá grunni og eiginlega algjörlega mótfallin því þá notaði ég Sjokoladekage Langpanne mixið frá TORO sem ég er virkilega hrifin af og nota núorðið við öll tækifæri.

Grunnuppskriftin fyrir smjörkremið er einföld:

  • 500 gr smjör við stofuhita (mjög mikilvægt að svindla ekki á þessu)
  • 500 gr flórsykur
  • 200 gr rjómaostur við stofuhita

Trixið hér er að þeyta fyrst smjörið, bæta svo flórsykrinum rólega saman við og loks rjómaostinum. 

Þá er kominn tími til að bragðbæta. 

Til að breyta kreminu í súkkulaðikrem þá set ég:

  • 4 matskeiðar af kakó

Blandið vel saman og nú má flippa. 

Kaka 1:

  • Þá bætti ég við kaffi og beilís.

Kaka 2: 

  • Þá bætti ég við bráðnuðu súkkulaði og kakómalti.

Kaka 3:

  • Þá bætti ég við kaffi og slatta af bráðnuðu súkkulaði.

Kaka 4: 

  • Þá bætti ég við slatta af kakómalti og 1 msk af kaffi.

Skúffukökurnar voru hafðar eins hefðbundnar og kostur var.

Síðan bræddi ég saman súkkulaði og rjóma í jöfnum hlutföllum til að gera ganache-ið sem lekur svo skemmtilega niður hliðarnar. 

Ég ætlaði mér í frekari tilraunamennsku þar en komst þá að því að kökurnar yrðu sóttar eftir 48 mínútur og þær voru allar óskreyttar auk þess sem önnur skúffukakan var ekki komin með krem. 

Að hætti hinna stórkostlegu sjónvarpsþátta Nailed it! hófst kapphlaupið við tímann og miðað við aldur og fyrri störf tókst þetta bara nokkuð vel. 

Ég var búin að leita lengi að misháum kökudiskum en illa hafði gengið. Ég fann þessa hvítu að lokum og þeir fást í versluninni Bast í Kringlunni og kosta eitthvað í kringum 10 þúsund krónur. 

Fermingardrengurinn var ánægður og sjálf hef ég getað sýnt myndir af kökunum og montað mig í nokkra daga. 

Nokkuð vel heppnuð og sjúklega bragðgóð.
Nokkuð vel heppnuð og sjúklega bragðgóð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert