Hið goðsagnarkennda fiskitakkó Kristínar Soffíu

Hreinasta dásemd.
Hreinasta dásemd. Eggert Jóhannesson

Fiskitakkó! Má það? Velti ég fyrir mér þegar lítil fluga hvíslaði því að mér að borgarfulltrúinn Kristín Soffía Jónsdóttir væri þekkt fyrir þessa yfirburða uppskrift sem gengur víst kaupum og sölum á netinu. Úr varð að Kristín Soffía féllst á að elda þennan dularfulla rétt fyrir mig til að ég gæti myndað mér mína eigin skoðun.

Það skal skýrt tekið fram að ég elska bæði takkó og fisk en hugmyndin um að splæsa þetta saman hljómaði dálítið eins og grillað slátur með guacamole. Kristín tók vel á móti mér í fallegu íbúðinni sinni í Laugarneshverfinu sem hún deilir með eiginmanni sínum, tveggja ára dóttur og hinum tignarlega Sir Alex (Ferguson) sem er stór hvítur köttur af Maine Coon-kyni.

Maturinn var nánast tilbúinn og Kristín notaði tímann til að segja mér frá því hvernig hún þróaði uppskriftina. „Ég fékk þetta á heilann eftir að hafa séð myndina I love you man þar sem allir voru alltaf að borða fiskitakkó. Mig langaði að prófa og lagði því mikla vinnu í að gúggla mér til óbóta og finna rétta grunninn. Uppskriftin sló strax í gegn og er í algjöru uppáhaldi,“ segir Kristín sem er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra en að elda.

Kristín segir að viðbrögðin hafi verið æði blendin í byrjun þegar hún bauð gestum í mat og fiskitakkóið var í boði. „Fólki fannst þetta smá skrítið fyrst en núna er uppskriftin orðin að fastarétti hjá ansi mörgum. Ég get sagt endalausar frægðarsögur af takkóinu en þú verður bara að prófa.“

Og ég prófaði. Því er skemmst frá að segja að fiskitakkóið hennar Kristínar Soffíu er geggjað. Allir mínir fordómar hafa fuðrað upp og þetta er eitthvað sem ég mun klárlega bjóða upp á á mínu eigin heimili. Kristín segir jafnframt að börn séu alveg jafn hrifin af því og fullorðnir sem er fullkomlega rökrétt í ljósi þess hvað það er bragðgott en bætir því við að til sé bæði sumar- og vetrarútgáfa af því. „Á veturna erum við í djúpsteikingunni eins og þú ert að prófa en á sumrin erum við aðeins léttari á því. Þá grillum við fiskinn oft,“ segir Kristín og ég ímynda mér að það sé alveg jafn gott.

Fiskitakkó!

Þessi réttur kemur upphaflega frá Baja í Mexíkó en er líka gríðarlega vinsæll víða í Bandaríkjunum og þá sérstaklega Kaliforníu. Það eru til endalausar útgáfur af honum og oft er fiskurinn djúpsteiktur. Í þessari er þorskurinn grillaður sem gerir réttinn léttari og sumarlegri.

Með þessu er borin fram sósa sem heitir einfaldlega hvít sósa, pico de gallo og svo niðursaxað kínakál og guacamole. Hér kemur uppskriftin fyrir fjóra – nákvæm hlutföll eru svolítið smekkur hvers og eins.

Fiskurinn

 • 800 g ósaltaðir þorskhnakkar
 • 1 bjór
 • 6 msk. hveiti
 • 1 tsk. lyftiduft
 • Mexíkósk kryddblanda – paprika, cumin, cayenne, kóríander
 • salt og pipar
 • repjuolía

Aðferð:

Hrærið saman hveiti, kryddi og lyftidufti. Blandið við bjór, blandan á að vera á við þykkt lakk.

Skerið fiskinn niður í bita á stærð við feita putta og þurrkið vel með eldhúspappír. Hitið olíu í potti eða djúpri pönnu, mér finnst pannan þægilegri en bitarnir verða að ná að fljóta í olíunni. Athugið hitastigið á olíunni með því að setja dropa af deigi út í, það á að steikjast strax. Veltið bitunum upp úr hveiti, dýfið ofan í deigið og svo beint í olíuna. Djúpsteikið fiskinn í sirka 3 mínútur.

Hvíta sósan

 • 1 hrein jógúrt
 • 1 lime
 • 2 msk. majónes
 • dill
 • salt & pipar

Aðferð:

Hrærið saman eina hreina dollu af jógúrti og majónesi. Kreistið út í þetta eitt gott lime og kryddið síðan með góðum skammti af dilli, salti og pipar.

Pico de Gallo

 • 3 stórir tómatar
 • ½ rauðlaukur
 • ferskur kóríander
 • 1 hvítlauksrif
 • ½ ferskur rauður chili (má sleppa)
 • 1 lime
 • salt og pipar

Aðferð:

Skerið tómatana í smá teninga og saxið laukinn fínt. Blandið öllu saman í skál og geymið látið standa í hálftíma áður en smakkað er til þar sem bragðið af hvítlauknum og kóríandernum getur verið lengi að skila sér.

Pönnukökurnar eru hitaðar. Ég nota litlar pönnukökur.

Ég set fyrst chili majó (til dæmis Sriracha majó). Ofan á fiskinn, kemur svo guacamole, pico de gallo og svo niðursaxað kínakál.

Kristín Soffía er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra en …
Kristín Soffía er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra en að elda. Eggert Jóhannesson
Takkóið tilbúið til samsetningar.
Takkóið tilbúið til samsetningar. Eggert Jóhannesson
Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »