Pönnupizza fyrir helgina

Það jafnast fátt á við heimabakaða pizzu, þessi uppskrift er …
Það jafnast fátt á við heimabakaða pizzu, þessi uppskrift er fyrir lengra komna sem nenna að nostra aðeins við deigið. mbl.is/pinterest

Það jafnast fátt á við heimabakaða pizzu og hefur föstudagspizzan skipað sér fastan sess á mörgum heimilum. Hérna er auðveld uppskrift frá Serious Eats af ljúffengum pizzugrunni, það eina sem þarf er steypujárnspottur og eftirlætis áleggið. Ananas, ansjósur - við dæmum engan. Deigið er örlítið tímafrekt og vill láta nostra við sig, enda er uppskriftin fyrir þá sem vilja taka pizzugerðina upp á næsta stig. Við mælum með því að henda í deigið að morgni til og þá er það klárt fyrir kvöldið. Ef ekki er til steypujárnspanna á heimilinu má notast við hringlótt kökuform í staðin.

Pönnupizza fyrir helgina

 • 400 gr hveiti
 • 2 tsk salt
 • 1 tsk þurrger
 • 275 gr vatn
 • 2 tsk góð ólífuolía
 • 1 ½ bolli góð pizzasósa
 • 340 gr rifinn mozzarella ostur
 • Handfylli af ferskum basil
 • Dass af rifnum parmesan osti
 • Uppáhalds pizzuáleggið

 Aðferð

 1. Blandið saman hveiti, salti, vatni og olíu í stóra skál. Leysið þurrgerið upp í skvettu af ylvolgu vatni. Bætið þá gerinu út í skálina og hrærið saman með stórri sleif. Athugið að skálin verður að vera að minnsta kosti 4 sinnum stærri en deigið, svo það hafi nóg rúm til að hefast.

 2. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa í 8-24 klukkustundir. Gott er að gera deigið kvöldinu áður en á að gera pizzuna, eða þá um morguninn samdægurs pizzugerð.

 3. Þegar deigið hefur lyft sér má dreifa dass af hveiti yfir og hella úr skálinni á eldhúsborð til að hnoða. Skiptið deiginu upp í tvo hluta og hnoðið og mótið hvorn hluta í þétta kúlu.

 4. Hellið 1-2 matskeiðum af olíu á botninn á tveimur steypujárnspönnum. Setjið eina kúlu af pizzudeigi í botninn á pönnunni og snúið þar til hún er löðrandi í olíu. Notið flatan lófa til að þrýsta deiginu niður í pönnuna og fletja það þannig út með höndunum, og dreifið olíunni um leið um pönnuna og upp með hliðum. Setjið því næst plastfilmu yfir steypujárnspönnurnar tvær og leyfið þessu að standa í tvær klukkustundir.

 5. Eftir tvær klukkustundir ætti deigið að vera búið að lyfta sér upp að brúnum pönnurnar, notið fingurna til að ýta því aftur niður og losa um loftbólur sem gætu hafa myndast. Hitið ofninn í 290 gráður.

 6. Setjið pizzasósu yfir bæði deigin og dreifið vel úr. Setjið því næst mozzarella ostinn yfir og kryddið með salti. Bætið eftirlætis álegginu ykkar á pizzuna. Sullið smá ólífuolíu yfir herlegheitin, handfylli af rifnum, ferskum basil og inn í ofn.

 7. Bakið þar til brúnir deigsins eru gullinbrúnar, eða um 12-15 mínútur.

 8. Notið spaða til að renna undir pizzuna og gægist á botninn. Ef botninn er ekki orðinn stökkur má skella steypujárnspönnunni á hellu á meðalhita og elda áfram í um 3 mínútur, eða þar til botninn er orðinn stökkur. Þegar pizzan er til skal rífa parmesan ostinn yfir og njóta strax.
mbl.is