Hélt fermingarveislu sem gleymist seint

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Það er alltaf forvitinlegt að sjá hvað eldúsmeistararnir bjóða upp á þegar þeir halda almennilegar veislur á borð við fermingarveislu. Það segir sig eiginlega sjálft að þar er ekkert meðalmennskumoð í gangi og að gestir eiga von á upplifun sem á fáa sína líka.

Sonur Ragnars, Villi Bjarki, fermdist um helgina og veislan var einkar vel heppnuð eins og sjá má á meðfylgjandi myndum en við gefum Ragnari orðið:

„Villi fékk sjálfur að velja matseðilinn. Hann vildi hafa hádeigisverð með súpu og brauði fyrir ættmenni og vini. Við ræddum lengi um hvaða súpu hann myndi vilja hafa á boðstólum - og úr varð minestrone súpa sem er í miklu uppáhaldi hjá honum.“

Minestrone með pestó handa 60 manns

  • 5 stórar gulrætur
  • 6 sellerísstangir
  • 3 laukar
  • 10 hvítlauksrif
  • 6 lárviðarlauf
  • 15 l vatn
  • 1 flaska hvítvín
  • 20 kjúklingateningar
  • 1,5 kg pasta
  • 6 litlar papríkur
  • 8 tómatar
  • 6 greinar rósmarín
  • handfylli basil og steinselja
  • salt og pipar

Allar góðar súpur byrja á mirepoix - gulrótum, sellerí og lauk sem er steikt í jómfrúarolíu. Ég bæti alltaf við hvítlauk, þar sem ég er forfallinn hvítlauksfíkill. Grænmetið er steikt þangað til að það mýkist vel og þá er heilli flösku af góðu hvítvini bætt saman við og soðið niður um helming þannig að allt áfengi sjóði upp.

Ég útbjó stóran kryddvöndul sem ég lagði ofan í pottinn og bætti svo vatninu og kraftinum saman við. Þetta fékk að krauma í nokkrar klukkustundir. Saltað og piprað.

Ég fékk góða aðstoð frá foreldrum mínum og bróður, sem skáru niður tómatana og papríkurnar sem var bætt útí á síðasta klukkutímanum. Þegar 15 mínútur voru eftir af eldunartímanum bættum við pastanu saman við.

Við vorum með ljúffengt pestó frá Rustichella sem við hresstum aðeins við með nýrri basilíku, meiri parmaosti og þynntum aðeins út með meiri jómfrúarolíu.

Súpan heppnaðist einstaklega vel og Villi var einkar ánægður með niðurstöðunar.

Við gerðum einnig fjóra stóra heita rétti. Allir voru þeir ólíkir. Það verður nú að vera smá fjölbreyttni í þessu.

Pabbi útbjó magnaða hvítlauksolíu sem við notuðum til að pensla allar ofnskúffurnar.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Ég skráði ekki nákvæmlega hjá mér hversu mikið fór í hverja ofnskúffu. Í fyrstu fór sirka 500 g af steiktu beikonkurli, fullt af smátt skorinni papríku, gullostur í næfurþunnum sneiðum og svo rifinn ostur og eitthvað af rifinni steinselju. Helltum svo blöndu af 15 eggjum og 500 ml af rjóma, sem hafði verið söltuð og pipruð, í hvert fat. Og að sjálfsögðu brauð - fyrst sneiðar neðst - en svo fullt af niðurrifnu brauði ofan á.

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Í næstu skúffu fór svo gróft brauð, einn stór haus af sperilkáli, muldar valhnetur og mangóchutney. Lögðum svo yfir þunnar sneiðar af Stóra Dímon og rifinn ost. Settum álíka magn af eggja- og rjómablöndu.

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Þessi er svo alger klassík. Skinka, aspas úr dós og camenbert í þunnum sneiðum. Eggja- og rjómablanda líkt og áður og svo rifinn ostur. Og muna að bleyta brauðið úr safanum úr dósinni!

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn. Sælgæti.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Þessi var líka alveg frábær. Pepperóni, skinka og svo hvítlaukssteiktir sveppir. Höfðingi í þunnum sneiðum og svo rifinn ostur. Jafnmikið af rjóma og eggjablöndu.

Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn. Ótrúlega ljúffengt.

Við buðum einnig upp á salöt með brauðinu sem við keyptum í Brauð&Co.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Bróðir minn sá um túnfiskssalatið. Sex dósir af túnfiski í vatni þeytt saman með átta soðnum eggjum, fullt af majónesi og svo smátt skornum vorlauk og hálfum rauðlauk. Saltað og piprað.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Faðir minn á svo heiðurinn af þessu rækjusalati. Eitt kíló af rækjum og átta soðin eggjum, fjórar smátt skornar papríkur, hálfur rauðlaukur, nóg af majónesi og handfylli af steinselju. Saltað og piprað.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Það var eiginlega þessi réttur sem sló í gegn. Heill risavaxinn ostur, Stóra Dímon var pakkað inn í smjördeig (notaði tvo pakka af upprúlluðu smjördeigi). Amma Habbý fékk svo það hlutverk að skreyta ostinn. Svo var hann penslaður með eggjablöndu.

Hann var svo bakaður við 200 gráður í 35 mínútur þangað til að deigið var orðið gullið að utan. Þessi var borðaður upp til agna!

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Við höfðum einnig aðra osta á boðstólunum. Stóran Gullost. Klassík.

Þá bárum við einnig fram stóran Höfðingja og aðra osta, vínber, ýmsar sultur og fjölbreytt úrval af niðursneiddum pylsum úr ýmsum áttum.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert