Nýr kraftbar eftir stutt stopp Benedorm

Karólína hefur opnað þar sem Nora Magasín var áður, við …
Karólína hefur opnað þar sem Nora Magasín var áður, við Pósthússtræti 9. Ómar V.

Það kemur bar í bars stað. Í Pósthússtræti við Austurvöll opnar nýr bar þar sem Benedorm var skamma stund og þar á undan Nora Magasín. Barinn heitir Karólína Craftbar & Café.

Mikið úrval af bjór, súrdeigspizzur á matseðli og róleg spjalltónlist. „Þetta er bar, enginn dansstaður,“ segir einn af þeim sem eru að koma þessu á fót, Sigtryggur Gunnarsson að nafni, í samtali við mbl.is.

Það má í rauninni segja að barinn sé þegar opnaður. Sigtryggur og hans menn keyptu reksturinn í rýminu ásamt rekstrinum að Jamie’s Italian nú í apríl. Síðasta laugardag opnuðu þeir hurðina að Karólínu.

„Akureyrarverð“

„Við ætlum að hafa þetta hlýlegan stað, sem gott er að setjast inn með með góðum vinum, fá sér bjór, kokteil, jafnvel bjórkokteil, og spjalla,“ segir hann. Að auki verði gott kaffi að fá af staðnum sem lagað verður af vönum kaffibarþjónum.

Sex bjórar verða á dælu, ásamt einni „rúllandi“ dælu, þar …
Sex bjórar verða á dælu, ásamt einni „rúllandi“ dælu, þar sem boðið verður upp á mismunandi bjór eftir tilefnum. Ljósmynd/Ómar V.

„Við verðum með mikið úrval af bjór á krana,“ segir Sigtryggur. Af 7 krönum verða flestir frá Viking en að auki verður ein rúllandi dæla þar sem ólíkur bjór verður í boði hverju sinni. Þar er til dæmis að fá bjórinn Beljanda eins og stendur. Sömuleiðis verða sérstakir bjórkokteilar í boði og fínn listi af kokteilum.

Um það hvort bjórinn verði á mannsæmandi verði á þessum víðsjárverðu tímum segir Sigtryggur ekkert að óttast. Bjór á krana verði á 1100-1200 krónur og það er gleðistund frá 14-20 alla daga, með bjór og vín á 800. Sem sé „bara Akureyrarverð,“ eins og Sigtryggur segir, sem er sjálfur að norðan.

Innréttingunni hefur verið breytt nokkuð síðan Benedorm var og hét. …
Innréttingunni hefur verið breytt nokkuð síðan Benedorm var og hét. Staðurinn hefur fengið þónokkrar andlitslyftingar síðustu ár en eigandi telur Karólínu komna til að vera. Ljósmynd/Ómar V.

Afturhvarf til fyrri tíðar

Erfiðlega hefur gengið að halda rekstri gangandi í þessu húsnæði. Nora Magasín fór í gjaldþrot eftir sumar 2018, eftir að hafa samt ráðist í miklar innréttingar á staðnum, og Benedorm tórði ekki nema örfáa mánuði frá því að það opnaði í nóvember 2018, þrátt fyrir lág verð á bjór.

Sigtryggur talar um að planið sé að hverfa aftur í grundvallaratriðin og reka staðinn meira að fyrirmynd eldri forvera staðarins, eins og Íslenska barinn og Kaffibrennsluna, sem báðir voru til húsa þarna á sínum tíma. Hann sannfærður um að það verði til þess að endurvekja farsælan rekstur í húsinu.

Karólína fær nafn sitt frá Karólínu Lárusdóttur myndlistarkonu, sem lést fyrr á þessu ári. Hún var þekkt fyrir myndir sínar af mannlífinu á Hótel Borg á árum áður, þannig að nafnið hefur tengingu við húsið.

Karólína Lárusdóttir málaði myndir af mannlífinu á Hótel Borg.
Karólína Lárusdóttir málaði myndir af mannlífinu á Hótel Borg. Ljósmynd/Skjáskot

Eins og segir hafa dyrnar þegar opnað á Karólínu þó markaðsherferð þess efnis hafi enn um sinn ekki verið hleypt af stokkunum. Barinn er opinn til 3 um helgar og eitt á virkum dögum. Húsið opnar tvö á daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert