Einfaldasta leiðin til að þrífa ofnskúffuna

Ljósmynd/SMEG

Ofnskúffurnar geta fyllst af alls konar gumsi sem erfitt getur verið að ná úr. Við rákumst á áhugavert húsráð sem vert er að prófa en þá er skúffan tekin úr ofninum og sett ofan á eldavélina. Vatn sett í hana og ein matskeið af þvottaefni.

Kveikt er á hellunni (notast var við gas í myndbandinu sem við sáum) og suðan látin koma upp. Var vatnið látið malla í kortér eða svo og síðan var ofnskúffan tekin af hellunni og vatninu hellt af í vaskinn.

Ofnskúffan var þvínæst skrúbbuð með hefðbundnum uppþvottalegi og var eftir það eins og ný. 

Við seljum þetta ekki dýrara en við keyptum en ef þið ætlið að prófa þetta ráð þá má allt eins setja ofnskúffuna bara inn í ofn með vatninu og þvottaefninu. Það ætti að gera sama gagn og að hafa hana ofan á eldavélinni sem hljómar hreint ekki öruggt.

mbl.is