Fljótleg en syndsamlega bragðgóð pítsa

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Við erum afskaplega hrifin af eldamennsku sem er fljótleg en syndsamlega bragðgóð. Það er nefnilega ekkert samasem merki á milli þess að vera sniðugur og þurfa að slá af gæðunum.

Hér er Berglind Hreiðars með uppskrift að því sem hún kallar bbq pítsu sem er ákaflega snjöll hugmynd. Hér eru notuð tilbúnir pítsubotnar og þeir smurðir með góðri bbq sósu í stað hefðbundinnar pístusósu.

Kosturinn við uppskrift eins og þessa er að það má leika sér með hana. Hér væri hægt að skipta út kjúkling fyrir rifið lamb (e. pulled lamb) eins og nú er hægt að fá í verslunum eða jafnvel skera niður þunnar sneiðar af góðri steik.

Möguleikarnir eru allavega óendanlegir og það er það sem gerir lífið svo skemmtilegt.

BBQ pizzur með kjúkling á grillið

Fyrir 4-6 manns

 • 8 x mini pizzabotnar frá Hatting
 • Sweet BBQ sósa
 • 1 grillaður kjúklingur
 • 1-2 rauðlaukar (eftir stærð)
 • Rifinn ostur (mozzarella og cheddar í bland)
 • Appelsínugult Doritos
 • Sýrður rjómi
 • Kóríander
 1. Smyrjið þunnu lagi af BBQ sósu á hvern pizzabotn og stráið smá mozzarella osti yfir.
 2. Rífið kjúklinginn niður og blandið BBQ sósu saman við. Ég notaði um 10 matskeiðar af sósu en þetta er smekksatriði. Þið viljið hafa næga sósu en samt ekki of mikla.
 3. Skerið rauðlauk í sneiðar og raðið rauðlauk næst á pizzabotninn, því næst vel af kjúkling í BBQ, aftur smá rauðlauk og svo cheddar osti og muldu Doritos.
 4. Hafið bökunarpappír undir og hitið við meðalhita (óbeinan) á grillinu í 4-5 mínútur. Fylgist bara með að botninn brenni ekki en gott það komi smá rákir í hann.
 5. Þegar pizzan er komin af grillinu má setja sýrðan rjóma og kóríander ofan á.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is