Æðislegir og einfaldir sítrónukókosorkuboltar

María Gomez

Nú eru skólarnir byrjaðir á ný og margir að huga að góðu nesti handa heimilisfólki. María Gomez galdrar hér fram tvær uppskriftir sem eru hvor annarri girnilegri. Annars vegar erum við með möndlukókossmyrju með döðlum sem er fullkomin til þess að smyrja ofan á brauð – nú eða á pönnukökur eða inn í snúða. Síðan eru það sítrónukókoskúlurnar sem eru fullkomnar til að eiga í kæli eða setja í nestisboxið. Einstaklega orkugefandi, hollar og bragðgóðar.

Æðislegir og einfaldir sítrónukókosorkuboltar

  • 1 poki eða 200 g MUNA-kasjúhnetur
  • ½ poki eða 100 g MUNA-kókosmjöl
  • Börkur af 2 sítrónum (raspið bara gula lagið ekki fara ofan í hvíta)
  • safi úr ½ sítrónu
  • 1 tsk. gróft salt
  • 3 msk. MUNA-agavesíróp
  • 2 msk. af þykka laginu af kókosmjólk í dós
  • 2 msk. af þunna vatninu af kókosmjólk í dós
  • smá MUNA-kókosmjöl til að velta upp úr

Aðferð

  1. Hér þarf ekki að bleyta upp kasjúhnetur fyrst heldur eru þær settar beint í matvinnsluvél úr pokanum.
  2. Gott er að vera búin að setja inn í ísskáp eina dós af kókosmjólk áður en kúlurnar eru gerðar svo þykka lagið setjist pottþétt upp á yfirborðið en oftast er það nú þannig þó dósin fari ekki í ísskáp en betra að vera viss.
  3. Nú skuluð þið setja öll hráefni í þeirri röð sem þau eru talin upp nema auka kókosmjölið til að velta upp úr í matvinnsluvél.
  4. Maukið saman þar til er orðið klístrað og hægt að móta úr því kúlur.
  5. Passið að mauka ekki of mikið, þá verður það að smjöri, mótið nú kúlur úr massanum og veltið upp úr kókosmjöli (ekki hafa áhyggjur ef ykkur finnst þær linar því þær stífna í ísskáp).
  6. Ég hafði mínar nokkuð stórar eða aðeins minni en borðtenniskúlu en þið getið haft þær minni líka eins og venjulegar kókoskúlur.
  7. Geymið svo í kæli, en þær eru bestar kaldar og þegar þær hafa stífnað svolítið í kælinum.
María Gomez
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert